Í morgun tilkynntu Bandaríkjamenn að þeir hefðu ákveðið að loka sendiráði sínu vegna upplýsinga um yfirvofandi árás á borgina.
Rússar hafa hótað hefndum eftir að Úkraínumenn skutu bandarískum flugskeytum á rússneskt landsvæði í gærmorgun. Vilja Rússar meina að með þessu séu Vesturlönd orðnir beinir aðilar að stríðinu.
Loftvarnaflautur ómuðu í Kænugarði og nágrenni borgarinnar í stutta stund í hádeginu af ótta við að eldflaugaárás væri yfirvofandi. Allt er með kyrrum kjörum í borginni þegar þetta er skrifað.
Í frétt BBC kemur fram að úkraínsk yfirvöld saki Rússa um að stunda einskonar „sálfræðihernað“ með því að dreifa upplýsingum á samfélagsmiðlum um yfirvofandi risaárás á Kænugarð og fleiri úkraínskar borgir.
Í færslu á Telegram hvetur herleyniþjónusta Úkraínu að taka einungis mark á upplýsingum frá opinberum aðilum. Rússar séu að reyna að setja sálfræðilegan þrýsting á íbúa Úkraínu. Hvetur herleyniþjónustan fólk til að halda ró sinni en taka þó mark á því þegar loftvarnaflautur borgarinnar óma og leita þá skjóls.