Eins og komið hefur fram gaf Joe Biden Bandaríkjaforseti Úkraínumönnum leyfi til að nota langdrægar eldflaugar Bandaríkjamanna gegn skotmörkum í Rússlandi.
Úkraínumenn skutu síðan í gær sex langdrægum ATACMS-eldflaugum að skotmörkum í Rússlandi, en talið er að skotmörkin hafi verið skotfæra- og vopnageymslur.
Rússar hafa brugðist ókvæða við og hefur Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagt að yfirvöld í Moskvu muni bregðast við. Um væri að ræða stigmögnun.
Skömmu áður en Úkraínumenn skutu bandarísku eldflaugunum á Rússland sagði Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, að Rússar myndu áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum ef „hefðbundnum vopnum“ yrði beitt gegn Rússlandi.
Í frétt BBC kemur fram að bandarísk yfirvöld hafi áður lokað sendiráði sínu í Kænugarði á þeim þúsund dögum sem liðnir eru frá innrás Rússa. Það gerðist til dæmis þegar Úkraínumenn héldu þjóðhátíðardag sinn í ágúst síðastliðnum.