Í umfjöllun Live Science um málið kemur fram að ákveðnir aldurshópar séu líklegri til að veikjast alvarlega af flensu og eiga þar með frekar á hættu að látast af hennar völdum. Þetta eru börn yngri en 5 ára, fólk eldra en 65 ára, óléttar konur og fólk með króníska sjúkdóma.
En hvað veldur því að flensan verður fólki að bana?
Í umfjöllun Live Science er haft eftir Akiko Iwasaki, prófessor í ónæmisfræði við Yale háskólann, að fólk geti látist á margan hátt af völdum flensu. Flensuveirur geti valdið alvarlegu tjóni á fjölda líffæra og líffærakerfum í líkamanum, þar á meðal lungum, hjarta, heila og ónæmiskerfinu.
Meðal lífshættulegra áhrifa flensuveira er að þær geta valdið lungnabólgu en þær geta borist beint inn í lungun. Þær geta einnig skemmt frumurnar í öndunarveginum og þær geta opnað leiðina fyrir bakteríur til að dafna í miklu magni en það ýtir undir bólgur og hugsanlega bakteríu lungnabólgu.
Alvarleg lungnabólga getur valdið bráðu öndunarheilkenni (ARDS) en þá safnast vökvi fyrir í lungunum sem verða stíf og geta þanist út.
Flensueinkenni geta einnig lagst á hjartað og valdið því að vöðvar þess bólgna sem og pokinn sem umlykur það. Þetta getur gert að verkum að hjartað á erfitt með að dæla blóði og ryþmi þess raskast, stundum með banvænum afleiðingum.
Það er mjög sjaldgæft, en gerist þó, að flensan veldur því að heilinn bólgnar en það getur haft alvarlegar afleiðingar, í versta falli dauða.