Drengurinn, sem kom í heiminn þegar ísöld ríkti, var bláeygður, dökkur á hörund og með krullótt hár. Hann lést líklega af völdum meðfædds hjartasjúkdóms.
Í rannsókninni, sem var nýlega birt í vísindaritinu Nature Communications, kemur fram að drengurinn hafi borið merki um vanþroska og innræktun.
Live Science segir að Mauro Calattini, fornleifafræðingur við Siena háskólann og einn höfunda rannsóknarinnar, hafi fundið gröf drengsins 1998 þegar hann var við uppgröft í Grotta delle Murva hellinum í Monopoli, sem er bær í suðausturhluta Puglia-héraðs eða „hællinn“ á ítalska stígvélinu en landið líkist einna helst stígvéli þegar það er skoðað á landakorti.
Gröfin var undir tveimur steinum og hafði líkið varðveist mjög vel en beinagrindin var heil. Ekkert hafði verið sett í gröfina með drengnum og þetta var eina gröfin í hellinum.
Það er mjög sjaldgæft að finna vel varðveittar líkamsleifar barns sem var uppi skömmu eftir að síðasta ísöldin náði hámarki fyrir um 20.000 árum. Þá var aðeins hlýrra á sunnanverðri Ítalíu en annars staðar á evrópska meginlandinu og því hefur fólkið, sem gróf drenginn, líklega leitað þangað til að komast í lífvænlegt umhverfi.
Rannsóknin leiddi í ljós að drengurinn lést þegar hann var um 16 mánaða gamall. Tennur hans bera merki um erfiðar líkamlegar aðstæður, meira að segja á meðan hann var enn í móðurkviði.