fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Pressan

Getur hjátrúin sagt til um gestakomur?

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 19. nóvember 2024 19:30

Mynd: Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókin Svartir kettir, fullt tungl og rauðhærðar konur tekur fyrir hjátrúa af ýmsum toga, bæði innlenda og erlenda, gamalgróna og nýja. Höfundurinn er þjóðháttafræðingurinn Símon Jón Jóhannsson og setur hann efnið fram á skýran og einfaldan hátt með því meðal annars að flokka hjátrúna í efnisflokka svo sem dýr, tíminn, líkaminn, ástir og kynlíf, matur og drykkur, athafnir, börn, hlutir, sjúkdómar og dauði.

Hér á eftir verður gripið niður í það sem snýr að „gestum“:

Margs konar vísbendingar eru um það hvenær og hvort gesti ber að garði.

Það er gesta von:

– Ef menn liggja andvaka.

– Þegar hlutir velta um koll eða detta óvænt í gólfið.

– Detti smurt brauð á gólfið og komi niður á smjörið.

– Detti kaffibolli um koll og brotni.

– Detti hnífur, skæri eða önnur oddhvöss verkfæri á gólf og standi þar á oddinum kemur einhver lyginn, kjöftugur eða kvensamur.

– Hellist eitthvað niður er von á drukknum einstaklingi.

– Hellist niður kaffi. Þá er von á kaffiþyrstum.

– Hellist niður mjólk. Þá er gesturinn svangur.

– Þegar suðar sérstaklega mikið í kaffikatli. Þá er von á gesti í kaffið.

– Þegar menn syfjar utan svefntíma.

– Þegar börn syfjar utan svefntíma en þá á gesturinn von á barni.

– Losni svuntubönd er sá gestur kvensamur.

– Svelgist mönnum á eða standi í þeim þegar þeir borða eða drekka og þá er gesturinn svangur.

– Missi menn handklæði þegar þeir eru að þurrka sér. Þá er ráð að hoppa aftur á bak yfir handklæðið til að koma í veg fyrir heimsóknina.

– Hnerri menn ofan í mat sinn.

– Logi eldur óvenju illa.

– Leggi menn á borð fyrir fleiri en von er á í mat.

– Þegar ung stúlka stingur sig á nál svo blæðir þá kemur biðill síðar þann dag.

– Þegar neistar hrökkva beint fram úr eldi, lýsislampa eða hlóðum þá er gesta von.

– Sá sem gleymir einhverju þar sem hann er í heimsókn kemur fljótlega aftur.

– Þegar verið var að strokka smjör og seint gekk að skilja var sagt að strokkurinn boðaði gestakomu.

– Sé fyrsti gestur á bæ í byrjun viku kona er það fyrirboði mikillar gestakomu þá vikuna.

– Þegar vinkað er á eftir gestum þar til þeir sjást ekki lengur boðar það vinslit og ógæfu. Þjóðverjar segja að komi gestir í hús þar sem er barn þurfi þeir að sitja svolitla stund en samt ekki of lengi. Annars er hætta á að þeir taki sálarfrið barnsins með sér þegar þeir fara.

– Sitji kettir þannig að önnur afturlöppin sé beint upp í loft, sem þeir gera oft þegar þeir þvo sér, er sagt að þeir setji upp gestaspjót og þá er von á gesti.

– Fari köttur upp í nýuppbúið rúm og þvoi sér er von á gesti.

– Þegar köttur þvær sér vel og vandlega með framloppinni aftur fyrir eyrun þá má búast við gesti.

– Liggi hundur fram á lappir sér úti á hlaði og snúi móti heimkeyrslunni er von á góðum gesti. Hið sama á við liggi seppi innan dyra og snúi í átt að útidyrunum. Leggi hundurinn hausinn aðeins yfir vinstri framfótinn er von á einhverjum óheiðarlegum en heiðvirðum liggi hann fram á hægri fót. Sé trýnið á seppa milli lappanna er von á innansveitarmanni en utansveitarmanni sé trýnið utan lappa.

– Þegar kýr eru óvenju ókyrrar kemur gestur í fjósið.

– Þegar hani galir að kvöldlagi er von á gestum daginn eftir.

– Mölflugur sem eru mikið á sveimi eða setjast á glugga boða gestakomu. Þær eru kallaðar gestaflugur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

Þess vegna er góð hugmynd að borða banana áður en farið er að sofa

Þess vegna er góð hugmynd að borða banana áður en farið er að sofa
Pressan
Fyrir 17 klukkutímum

Hann átti bara 20 dollara en keypti jólagjöf handa mömmu sinni fyrir 80 dollara – Svona tókst honum það

Hann átti bara 20 dollara en keypti jólagjöf handa mömmu sinni fyrir 80 dollara – Svona tókst honum það
Pressan
Í gær

Þess vegna áttu að setja skó í peningaskápinn á hótelinu

Þess vegna áttu að setja skó í peningaskápinn á hótelinu
Pressan
Í gær

Rússar fagna jóladagsárásunum sem forseti Úkraínu kallar ómannúðlegar

Rússar fagna jóladagsárásunum sem forseti Úkraínu kallar ómannúðlegar