Þrátt fyrir að demókrataflokkurinn hafi lengi talið sig málsvara verkalýðs Bandaríkjanna þá reyndist raunin önnur þegar atkvæðin komu upp úr kjörkössunum. Verkalýðurinn hafði snúið baki við flokknum og kaus Donald Trump.
„Ég held að flokkurinn hafi ekki tekið nægilega vel utan um verkalýðinn og hafi ekki gert það áratugum saman. Við þurfum að brjóta demókrataflokkinn niður og endurbyggja hann ef hann ætlar sér að vera áfram flokkur vinnandi fólks,“ sagði Brent Booker, formaður alþjóðlegu verkalýðssambands Norður-Ameríku.
Staða verkalýðs er önnur í Bandaríkjunum en hér á Íslandi en um 9 af hverjum 10 vinnandi Bandaríkjamönnum tilheyra engu verkalýðsfélagi.
„Við getum ekki náð til allra sem standa utan verkalýðsfélaga. Við getum bara náð til hluta okkar félagsmanna,“ sagði Booker og vísaði þar til demókrata. Booker telur að demókrötum hefði verið betur borgið í kosningabaráttunni hefði flokkurinn rekið öflugan popúlískan boðskap um efnahaginn og varið minna púðri í umdeild menningarmál sem flokkast undir rétttrúnað og skilaboð gegn vopnaeign. Með því að eyða of miklum tíma í að predika málefni sem teljast falla undir viðvarandi menningarstríð hafi flokkurinn fælt frá sér vinnandi fólk og tekið á sig blæ menningarelítu.
„Margir okkar félagsmenn eru eigendur skotvopna og mikið af félagsmönnum stundar veiðar.“
Booker lýsir því að hann hafi flakkað milli vinnustaða á árinu og hlustað á umkvartanir félagsmanna sinna. Félagsmenn höfðu áhyggjur af stöðunni á landamærunum, verðbólgu og hvernig aukin áhersla á umhverfisvernd væri að stefna störfum við mengandi iðnað í hættu.
Það styrki líka við hugmyndir um að demókratar séu búnir að hengja sig um of á menningar- og menntaelítuna, að mikill meirihluti ómenntaðra kjósenda leitaði í fang Trump á meðan menntaðir repúblikanar voru líklegri til að snúa bakinu við Trump og leita í faðm demókrata. Þar með hafi demókratar orðið blindir fyrir þeim hræðilegu afleiðingum sem verðbólgan hefur haft á þá Bandaríkjamenn sem eru á lægstu laununum, enda hafi efnahagsástandið ekki bitnað sérstaklega illa á þeim sem eru vel menntaðir og fá hærri tekjur.
„Þeim mistókst að takast á við verðbólguna, sögðu að verðbólgan væri ekki raunverulegur vandi og að sársauki vinnandi fólks væri ekki raunverulegur,“ sagði Jimmy Williams, formaður sambands málara og tengdra iðngreina. „Demókrataflokkurinum hefur áfram mistekist að setja forgang á að sterk skilaboð til verkalýðsins þar sem tekið er á því sem raunverulega skiptir vinnandi fólk máli.“
Þar hafi Trump staðið sig betur. Hann hafi sent sterk skilaboð til vinnandi stétta þar sem fjallað var um verðbólguna, efnahaginn, að fjölga verksmiðjustörfum, að herða reglur til að sporna við ítökum Kína og tryggja vinnandi fjölskyldum salt í grautinn. Formaður verkalýðssamtakanna AFL-CIO, Liz Schuler, segir að þó Trump hafi tekist að koma þessum skilaboðum á framfæri þá hafi sagan þó sýnt að Trump sé meira í loforðum en minna í efndum.
Aðrir sérfræðingar hafa verið duglegir undanfarna daga að senda eitraðar pillur til demókrata enda hafi þeir algjörlega misst sjónar á markinu. Gjarnan er þá minnst á kosningabaráttu Bill Clinton árið 1992 þar sem hann keyrði á slagorði sem er í dag orðið ódauðlegt – „Þetta snýst um efnahaginn, fíflið þitt“ – en þar var með beinum hætti vísað til þess að þegar gengið er til kosninganna þá er það helst efnahagurinn sem skiptir kjósendur máli – þeir kjósa því fremur með veskinu en hjartanu. Demókratar hafi þó gleymt þessari mikilvægu lexíu í ár og nú hafi þeir næstu fjögur árin til að leggjast aftur yfir bækurnar og læra sína lexíu.