Þannig er mál með vexti að lok janúar barst tilkynning um að bjarndýr hefði valdið miklum skemmdum á Rolls-Royce bifreið í Lake Arrowhead. Með tilkynningunni fylgdi myndband úr öryggismyndavél sem átti að sýna björninn, svokallaðan brúnbjörn, komast inn í bifreiðina og valda miklum skemmdum á innanstokksmunum.
Málið kom til kasta tryggingafélags eiganda bifreiðarinnar og var það mat sérfræðinga þar að um væri að ræða mann sem klæddur var eins og bjarndýr. Nokkur atriði lágu þessari ákvörðun til grundvallar; til dæmis sú staðreynd að brúnbirnir hafa ekki sést í Kaliforníu í meira en heila öld en þar er aðeins að finna svartbirni.
Lögregla hóf rannsókn málsins eftir að tryggingafélagið tilkynnti svikin og við leit á heimili eiganda bílsins fannst búningur sem líklega var notaður við verknaðinn. Þá kom í ljós að fleiri svik af þessu tagi höfðu komið upp um svipað leyti þar sem bjarndýr olli skemmdum á tveimur Mercedes-Benz bifreiðum.
Nú hafa fjórir menn, sem allir tengjast, verið ákærðir vegna gruns um samantekin ráð og fyrir að svíkja milljónir króna út úr tryggingafélögum.