Sænska götublaðið Expressen greindi frá því á miðvikudag að starfsmenn ríkisstjórnarinnar hafi þurft að leggja þó nokkuð á sig fyrir jafnréttisráðherrann, Paulina Brandberg. Tryggja þurfi að ráðherrann rekist ekki óvart á banana en hún er víst haldin ofsahræðslu við ávöxtinn.
Fréttin byggði á tölvupóstum sem miðillinn hafði undir höndum. Þar kom fram að starfsmenn krefjast þess að allir bananar séu fjarlægðir áður en ráðherrann mætir á svæðið.
„Paulina Brandberg er með alvarlegt ofnæmi fyrir bönunum svo það væri vel þegið ef það væru engir bananar á þeim stöðum sem hún mun dvelja, “ segir í einum póstinum.
Brandberg tjáði sig um málið við Brandenberg og útskýrði að ekki væri um eiginlegt ofnæmi að ræða heldur sé um að ræða ástand sem hún sé að vinna sig í gegnum með aðstoð fagfólks.
Sjálf hefur Brandberg viðurkennt á samfélagsmiðlum að hún sé haldin ofsahræðslu við banana.
„Ég er með bananafóbíu,“ skrifaði hún á miðilinn X í september árið 2020. Mánuði áður játaði hún að þetta væri líklega ein galnasta fóbía í heimi enda þykir ofsahræðsla við banana ekki algeng.
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristersson, hefur lýst yfir stuðningi við Brandberg og segir að ofsahræðsla hennar hafi ekki bitnað á störfum ríkisstjórnarinnar. „Ég ber virðingu fyrir öllum sem eru haldnir ofsahræðslu. Það truflar mig þegar harðduglegur ráðherra er smættaður niður í einhverja fóbíu.“
Menntamálaráðherra Svíþjóðar, Johan Pehrson, hefur gagnrýnt fjölmiðla fyrir að hæðast að Brendberg. Hún eigi flekklausan feril og hafi barist ötullega fyrir réttindum kvenna í viðkvæmri stöðu.
Þingmenn úr minnihlutanum hafa eins komið Brandberg til varna. Til dæmis hefur Teresa Carvalho úr sósíal demókrataflokknum lýst því yfir að vera haldin sömu fóbíu. „Við höfum átt margar erfiðar rökræður um vinnuaðstæður en hvað þetta varðar stöndum við saman gegn sameiginlegum óvin.“