40 ár eru síðan Cassius var fangaður. Sérfræðingar telja að þessi risastóri saltvatnskrókódíll gæti hafa verið rúmlega 120 ára en þeir vita það ekki með vissu.
ABC News hefur eftir Sally Isberg, stofnanda Centre for Crocodile Research, að „á þessu stigi, bendi allt til að hann hafi drepist sökum aldurs“.
Til að geta sagt nákvæmlega til um aldur hans verður þessi 5,5 metra langi krókódíll krufinn.
Þegar hann var fangaður í Finniss ánni, nærri Darwin, 1984 töldu vísindamenn hann vera um 80 ára. En vandinn við að segja til um aldur krókódíla er að þegar þeir verða fullorðnir, hægir á vexti þeirra og því er útilokað að segja nákvæmlega til um aldur þeirra.