Idenyt skýrir frá þessu og segir að meðal þessara matvara sé beikon. Í því er týramín en það er efni sem örvar framleiðslu adrenalíns en það gerir fólk „meira vakandi“ og getur gert því erfitt fyrir við að sofna.
Sumar ostategundir, til dæmis cheddar og parmesan, innihalda einnig týramín sem hefur fyrrgreind áhrif. Það getur auðvitað verið freistandi að fá sér smá ostbita en það er ekki svo snjallt þegar stutt er í háttatíma.
Dökkt súkkulaði er enn ein freistingin sem er rétt að forðast seint að degi til. Súkkulaði inniheldur koffín sem er örvandi efni og þótt þú þurfir að borða mikið magn til að finna fyrir áhrifum þess, þá getur það haft áhrif á svefninn ef þú er næm(ur) fyrir koffíni.
Alkóhól getur hjálpað fólki að sofna hratt en það hefur hins vegar mjög slæm áhrif á svefnhringrásina. Það getur gert svefninn órólegri og þú átt á hættu að vakna þreytt(ur) og örmagna, jafnvel eftir að hafa sofið alla nóttina.
Kryddaður matur á borð við chili og sinnep getur truflað svefninn. Þessar fæðutegundir hækka líkamshitann og það getur gert fólki erfitt fyrir við að sofna og valdið órólegum nætursvefni.
Það er líka gott ráð að forðast kjötneyslu þegar líður að háttatíma. Kjöt inniheldur mikið prótín en það getur haldið aftur af framleiðslu heilans á efnum sem valda syfju.