Rússar hafa lagt aukinn kraft í árásir sínar í Úkraínu að undanförnu og í nótt voru til dæmis gerðar sprengjuárásir á höfuðborgina Kænugarð í fyrsta sinn í nokkuð langan tíma.
Viktoria lýsir hryllilegri aðkomu í viðtali við BBC þegar dóttir hennar, Maria Troyanivska, lést eftir að svokölluðum Shahed-dróna var skotið á heimili fjölskyldunnar í úthverfi borgarinnar.
Maria hafði komið snemma heim til sín kvöldið sem árásin var gerð en hún og eiginmaður hennar, Volodomyr, vöknuðu við gríðarlegan hávaða í íbúðinni um nóttina. Þegar þau hlupu út úr herberginu sínu og í átt að herbergi dóttur sinnar áttuðu þau sig fljótt á því hvaða hryllingur hafði átt sér stað.
Dróninn hafði farið í gegnum rúðuna á herberginu og sprungið þar inni. Herbergið varð alelda fljótt og virðist Maria hafa látist samstundis í rúmi sínu. Vegna elds og reyks gátu þau ekki komið dóttur sinni út úr herberginu og fannst illa leikið lík hennar í herberginu þegar eldurinn hafði verið slökktur.
„Við þurftum hafa kistuna lokaða þegar jarðarförin fór fram. Hún átt engan möguleika,“ segir Viktoria í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC.
Í frétt BBC kemur fram að Rússar hafi lagt aukinn þunga í árásir sínar í Úkraínu að undanförnu. Meira en tvö þúsund drónaárásir voru gerðar í nýliðnum októbermánuði sem er það mesta í einum mánuði síðan stríðið hófst snemma árs 2022. Samkvæmt sömu upplýsingum skutu Rússar 1.410 drónum að Úkraínu í september og 818 í ágúst. Í maí, júní og júlí skutu þeir samtals 1.100 drónum.