Verslunarrisinn Costco neyddist til að taka næstum 40 þúsund kíló af smjöri úr sölu vegna þess að í innihaldslýsingu vörunnar var ekki minnst á að smjörið inniheldur mjólk.
New York Post greinir frá því að Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hafi sent frá sér innköllun fyrir 79.200 pund (35924 kg) af Kirkland Signature smjöri vegna ótilgreinds ofnæmisvaka í október. Pakkningar fyrir bæði saltaða og ósaltaða Kirkland Signature Sweet Cream Butter innihalda rjóma sem innihaldsefni, en innihalda ekki ofnæmisviðvörun um að smjörið „inniheldur mjólk“.
Netverjar hafa klórað sér í kollinum yfir þessari innköllun og algengasta athugasemdin er jafnframt sú einfaldasta: „Þetta er smjör.“
„80.000 pund af Costco smjöri var bara innkallað, vegna þess að á miðanum stendur ekki að það innihaldi mjólk. Það er smjör. Fréttir leiðbeina fólki um hvernig það geti skilað smjörinu eða fargað því á öruggan hátt. Þetta er smjör,“ skrifaði einn karlmaður.
Annar skrifaði í gríni: „Getið þið vinsamlegast fargað því á öruggan hátt heima hjá mér? Ég á eftir að baka mikið fyrir hátíðirnar.“
„Ef þú þarft ríkið til að segja þér að smjör sé mjólkurvara, þá get ég ekki hjálpað þér. Guð, ég hata ríkið.“
Í innkölluninni er bent á að mjólk sé ein helsta fæðutegundin sem „er orsakavaldur fyrir alvarlegustu ofnæmisviðbrögðum í Bandaríkjunum“.
Margir netverjar gagnrýna Costco fyrir matarsóunina og benda á að í stað þess að farga vörunni hefði mátt útbúa límiða með réttri merkingu og líma á vöruna.
Ekki kom fram í innkölluninni hvort einhver hefði veikst eða fengið aukaverkanir af smjörinu.