Sumar fæðutegundir innihalda náttúrulegt D-vítamín og vítamíninu hefur verið bætt við aðrar fæðutegundir. Samt sem áður fá fæstir nóg af D-vítamíni og verða því að taka D-vítamíntöflur til að fullnægja þeim þörfum sem líkaminn hefur fyrir vítamínið.
En er betra að taka D-vítamín að morgni en að kvöldi? Eða er kannski best að taka það um miðjan dag?
Niðurstöður rannsókna benda til að best sé að taka það á morgnana því ef það er tekið á kvöldin, þá getur það dregið úr framleiðslu melatóníns en það er efni sem hjálpar okkur við að finna til syfju.
Melatónín og D-vítamín vinna gegn hvort öðru. Sólarljósið hefur áhrif á magn D-vítamíns og D-vítamín stýrir framleiðslu melatóníns. Dægurrytminn, sem stýrir svefni og vöku, getur einnig komið við sögu varðandi stýringu á magni D-vítamíns.
Rannsóknir benda til að magn D-vítamíns breytist yfir daginn og þess hversu mikið sólarljós við komumst í snertingu við. Magn þess hefur tilhneigingu til að vera hærra þar sem sólar nýtur mikið við. Á móti eykst melatónínframleiðslan þegar minna er um sólarljós, til dæmis á veturna og þeim mun fjær sem fólk er miðbaug.
Magn D-vítamíns getur haft áhrif á svefninn. Ef magnið er lítið getur það dregið úr svefngæðunum og lengd svefnsins. Í tímaritinu Verywell Health kemur fram að frekari rannsókna sé þörf á samspili D-vítamíns og dægurrytmans og hvenær dags D-vítamín er tekið í formi fæðubótarefnis.