TikTok-stjarna Minelys Zoe Rodriguez–Ramirez hafði getið sér gott orð á þessum vinsæla miðli fyrir myndbönd um líkamsrækt og heilsuna. Í síðustu viku gerði hún sér ferð til verslunarkeðjunnar Walmart þar sem hún ætlaði að skiptast á myndum við ónefnda manneskju. Hún skilaði sér þó ekki heim aftur og fjölskylda hennar óttaðist það versta. Sá ótti reyndist á rökum reistur.
Þetta átti sér stað þann 22. október. Eftir að Minelys, eða Mimi eins og hún var kölluð, skilaði sér ekki heim fékk unnusti hennar furðuleg skilaboð úr síma hennar. „Ég er að bíða eftir að bróðirinn sæki hann“. Unnustinn sagði skilaboðin hin furðulegustu og voru þau ekki rituð í anda Mimi. Morguninn eftir tilkynnti fjölskyldan hvarfið til lögreglu og fór þá að stað víðtæk leit. Á mánudaginn handtók lögregla 24 ára gamlan karlmann að nafni Angel DeJesus Rivera–Sanchez. Ungi maðurinn var handtekinn í borginni Atlanta sem er töluverða leið frá bænum Cornelia þar sem Mimi hvarf. Angel var sakaður um að hafa rænt áhrifavaldinum og svo á þriðjudaginn var hann ákærður fyrir morð eftir að líkamsleifar Mimi fundust á vegi skammt frá Walmart versluninni.
Mimi var með rúmlega 35 þúsund fylgjendur á TikTok. Hún lætur eftir sig unnusta og sjö ára dóttur. Fjölskylda hennar safnar nú pening til að geta jarðað Mimi á heimaslóðum í Puerto Rico.