Metro skýrir frá þessu og segir að það hafi verið nemendur á öðru ári í grunnskóla Hornsea sveitarfélagsins sem voru í heimsókn í Hornsea United Reform kirkjunni þegar klámið birtist á skjánum.
Fartölva, í eigu starfsmanns kirkjunnar, var notuð til að varpa myndefninu á risaskjáinn og átti hún að sýna söngtextana þar en þess í stað birtist klám. Líklega hafa sum barnanna því verið ansi hissa á hinum órannsakanlegu vegum guðs.
„Við vorum að syngja „We Plough The Fields And Scatter“ en skyndilega byrjaði kirkjan að sýna börnunum þennan viðbjóð. Sex og sjö ára börnin voru steinhissa og vissu ekki hvert þau áttu að horfa,“ hefur The Sun eftir einu foreldri.
Félagsmálayfirvöld eru nú að rannsaka málið og hafa krafið leiðtoga kirkjunnar um skýringar á málinu. Einn leiðtoganna sagði að það sé ekki hægt að halda upp neinum vörnum í þessu máli. Það verði bara að láta rannsóknarferli yfirvalda hafa sinn gang.