Sprengjuhótunum hefur rignt inn á kjörstaði víða í Bandaríkjunum. Þessar hótanir þykja ekki trúverðugar en hafa þó valdið því að sumum kjörstöðum verður lokað seinna en ella.
Þó nokkrar hótanir bárust til Atlanta og þurfti að rýma kjörstaði fyrr í dag svo sprengjuhundar gætu leitað af sér allan grun.
Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu, sagði við fjölmiðla að líklegast þyki að Rússar séu á bak við hótanirnar. „Georgía lætur ekki ógna sér. Rússarnir hafa valið ranga Georgíu,“ sagði ráðherrann.
Eins bárust hótanir í Michigan, Arizona og Wisconsin en þessi fjögur ríki sem hér hafa verið nefnd teljast sveifluríki. Sveifluríki kallast einnig barátturíki og þykja þau skipta höfuðmáli í kosningunum. Gjarnan er talað um að í raun séu það íbúar sveifluríkjanna sem kjósa forsetann. Munurinn á milli frambjóðenda er svo lítill þar í skoðanakönnunum að ómögulegt er að spá fyrir um sigurvegara.
Hótanirnar þykja merki um hversu óforskammaðir sum erlend ríki eru orðin í afskiptum sínum af lýðræðislegum kosningum annarra landa. Eins eru bæði Rússar og Íran talin standa fyrir gífurlegri upplýsingaóreiðu og falsfréttum þar sem kjósendur í Bandaríkjunum hafa meðal annars verið hvattir til að mæta ekki á kjörstað út af meintri hryðjuverkaógn. Alríkislögreglan, FBI, hefur sérstaklega varað við slíkum myndböndum sem ganga nú um netheima.
Lögreglan í Maine hefur líka greint frá svokölluðum sérsveitarhrekkjum eða „swatting calls“ þar sem lögreglu er tilkynnt um meinta ógn svo að sérsveitin sé kölluð út.