Biden hugðist bjóða sig fram til forseta á nýjan leik en efasemdir fóru að heyrast um hæfi hans til embættisstarfa vegna aldurs og heilsufars. Hann átti afleita frammistöðu í kappræðum gegn Donald Trump í sumar og ákvað stuttu síðar að stíga til hliðar.
Einhverjir kynnu að halda að það væri styrkleiki að hafa sitjandi forseta við hlið sér í miðri kosningabaráttu en staðreyndin er sú að Joe Biden var lítt sýnilegur síðustu vikurnar í aðdraganda kosninganna.
Barack Obama, fyrrverandi forseti, tók þátt í kosningafundi Harris í Wisconsin og Bill Clinton í Norður-Karólínu. Á sama tíma var Biden heima, fjarri sviðsljósinu. Meira að segja eiginkona hans, forsetafrúin Jill, hefur tekið þátt í kosningabaráttu Harris, meðal annars í Pennsylvaníu þar sem hún heilsaði upp á stuðningsmenn.
Talið er líklegt að fyrir þessu séu ákveðnar ástæður; Harris hafi viljað fjarlægja sig frá Biden til að gefa til kynna að framboð hennar – og hugsanlegt kjör – væri ekki framlenging á forsetatíð hans.
Daily Mail fjallar um þetta og hefur eftir heimildarmönnum sínum að forsetinn hafi virkað „týndur“ síðustu vikurnar. Hann hafi horft mikið á sjónvarpið að undanförnu og þegið ráð frá barnabörnunum um það nýjasta á Netflix.
„Hans hörðustu bandamenn segja að það sé ekki ósanngjarnt að halda því fram að hann hafi verið dálítið einmana,” segir í umfjölluninni.