The Independent hefur eftir Patrick Holden, sem framleiðir Hafod Welsh Cheddar, að tveimur og hálfu tonni af ostinum hafi verið stolið frá honum. Hann fékk pöntun upp á 950 stykki af honum, osturinn er framleiddur í stórum hringlaga stykkjum, af aðila sem gaf sig út fyrir að vera franskur heildsali. Verðmæti ostsins er sem nemur um 53 milljónum íslenskra króna.
Holden notast við mörg hundruð ára gamla uppskrift við framleiðsluna og heldur 90 kýr. Hann sagði að fyrrgreind pöntun hafi verið sú stærsta sem hann hefur nokkru sinni fengið og þetta hafi því verið mikið áfall. Framleiðslugetan sé takmörkuð en hann hafi átt ost á lager og hafi því getað afgreitt pöntunina.
Osturinn var fluttur í vöruhús í útjaðri Lundúna, þar beið sendibíll eftir honum og var honum ekið á brott um leið og búið var að setja ostinn í hann. Eftir það hefur ekkert spurst til ostsins né svikahrappanna.
Holden sagðist telja að osturinn endi í Miðausturlöndum eða Rússland því þar spyrji fólk engra spurninga um uppruna hans.