Le Monde skýrir frá þessu og segir að appið hafi í mörgum tilfellum sýnt hvar sumir af valdamestu mönnum heimsins hafa haldið sig.
Rúmlega 120 milljónir manna um allan heim nota Strava. Það er meðal annars hægt að nota appið til að skrá hlaupatúra. Það er einnig hægt að fá mjög nákvæmar upplýsingar í appinu um hvar og hvenær notandinn fór í hlaupatúr.
Með þeim möguleika hefur fólk til dæmis getað séð hvar Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, hafa haldið sig. Þetta á einnig við um fleiri þjóðarleiðtoga.
En það eru ekki forsetarnir sjálfir sem deildu þessum upplýsingum. Það gerðu öryggisverðir þeirra sem notuðu Strava í hlaupatúrum sínum þegar þeir voru nærri forsetunum.
Í tilfelli Joe Biden var hægt að sjá á hvaða hóteli hann dvaldi í San Francisco 2023 þegar hann tók á móti Xi Jinping, Kínaforseta, í borginni.