fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Pressan

„Hlaupið inn í skiptiherbergið, það er svolítið hryllilegt að gerast þar“

Pressan
Laugardaginn 2. nóvember 2024 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvöld eitt árið 1988 sat Richard Andersen rannsóknarlögreglumaður í felum í herbergi á sjúkrahúsinu í Kolding í Danmörku. Hann var að sinna sérverkefni, verkefni sem var ólíkt öllu öðru sem hann hafði tekist á við á 12 ára ferli sínum í lögreglunni. Á sjónvarpsskjá horfði hann á beina útsendingu úr skiptiherberginu á sjúkrahúsinu. Þar var kona á fullu að skipta á átta mánaða gömlum syni sínum. Hún gerði þetta af mikilli ástúð og vel, betur en margar af hinum mæðrunum sem hann hafði fylgst með í skiptiherberginu þennan dag. Richard hugsaði því með sér að enginn fótur væri fyrir grunsemdunum sem beindust að konunni. Síðan teygði konan sig í pokarúllu og reif einn poka af. Hún lagði pokann yfir maga drengsins á meðan hún var að skipta á honum. Síðan var pokinn kominn á bringu drengsins. Richard sá nákvæmlega það sem hann hafði ekki trúað að hann myndi sjá. Hann lyfti símtólinu og hringdi í barnadeildina.

„Þetta er lögreglan, hlaupið inn í skiptiherbergið, það er svolítið hryllilegt að gerast þar,“ sagði hann en það var eins og konan á hinum enda línunnar skildi ekki alvöruna í því sem hann sagði. Hann lagði því á og hljóp. Upp stigann og eftir ganginum í átt að skiptiherberginu.

Þetta var upphafið að lausn annars tveggja mála af þessari tegund sem hafa komið upp í Danmörku á undanförnum 30 árum. Þessi mál tengjast ástandi eða sjúkdómi sem nefnist Münchausen by Proxy hjá fullorðnu fólki. Það lýgur þá til um eða framkallar sjúkdómseinkenni hjá börnum til að fá athygli. Nýlega var fjallað um málið í þættinum Station 2 á TV2.

Síðara málið er öllu nýrra af nálinni eða síðan í febrúar á þessu ári. Þá var 36 ára móðir dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa árum saman tappað blóði úr syni sínum.

Ejstrupholm
Vettvangur eins óhugnanlegasta sakamáls Danmerkur.

Upphafið

Á meðan lögreglumaðurinn Richard var á harðahlaupum á sjúkrahúsinu sat Bjarne Myllerup heima hjá sér í Ejstrupholm, sem er í um 70 kílómetra fjarlægð frá Kolding. Hann grunaði ekki að innan skamms yrði hann í brennidepli óvenjulegs og skelfilegs mál, einstaks mál í Danmörku þar til á þessu ári.

Bjarne kom fram í Station 2 og skýrði frá hvernig málið eyðilagði fjölskyldu hans. Hann kynntist konu sinni þegar þau voru ung að árum og þau felldu strax hugi saman og eignuðust dóttur 1984 og soninn Andreas tveimur árum síðar. Hann var glaður drengur og Bjarne naut þess að sjá hversu vel eiginkona hans hugsaði um börnin. Hún las fyrir þau, lék við þau og sýndi þeim mikla umhyggju. Andreas var ekki mjög gamall þegar hann fór að fá einhvers konar köst, hann svimaði og var oft lagður inn á sjúkrahús en læknar voru engu nær um hvað væri að honum. Hann var oft við dauðans dyr. Bjarne vann mikið en mætti oft á fundi með yfirlækninum og ræddi við hjúkrunarfólkið um gang mála. En að öðru leyti var það konan hans sem sá að mestu um það sem tengdist veikindum drengsins. Hún átti einnig frumkvæðið að þátttöku fjölskyldunnar í sjónvarpsþætti þar sem þau skýrðu frá veikindum Andreas.

Sérstakt herbergi var útbúið á heimili þeirra með endurlífgunarbúnaði svo hægt væri að hafa Andreas, sem var orðinn eins árs, heima. Móðirin sá að mestu um allt þessu tengt en á nóttunni áttu læknanemar að vakta Andreas. Daginn eftir að Andreas kom heim var hann lagður inn á sjúkrahús því hann hafði fengið kröftugt kast. Vinnufélagi Bjarne ók honum á sjúkrahúsið og á leiðinni hugsaði Bjarne bara um að nú myndu þau missa drenginn. Þegar hann var nýkominn á sjúkrahúsið kom yfirlæknirinn og færði þeim hin hörmulegu tíðindi að Andreas væri látinn. Heimur Bjarne hrundi saman. Læknarnir vildu kryfja Andreas en hjónin vildu það ekki, það átti ekki að leggja meira á þennan litla líkama. Í dánarvottorðið var því skrifað að Andreas hefði látist af völdum hjartastopps.

Annar sonur fæðist

Á gamlárskvöld 1987, níu mánuðum eftir að Andreas lést, eignuðust Bjarne og kona hans annan son, Jesper. Þriggja, fjögurra mánaða að aldri fór hann að fá svipuð köst og Andreas hafði fengið. Þrautagangan byrjaði því upp á nýtt, endalausar læknarannsóknir og sjúkrahúsdvöl en það skilaði engu þar til nýr yfirlæknir, Søren Pedersen, tók við á barnadeild sjúkrahússins í Kolding. Hann var ráðinn til sumarafleysinga. Hann var með 11 ára starfsreynslu og hafði heyrt af Andreas en hafði ekki komið að hans málum því hann starfaði á annarri deild sjúkrahússins. Hann ákvað að prófa eitthvað annað en það sem læknarnir höfðu gert fram að þessu. Hann fór gaumgæfilega í gegnum sjúkraskýrslur Andreas og sá svolítið sem vakti athygli hans. Enginn læknir hafði séð þegar kast byrjaði hjá Andreas eða Jesper. Þetta byrjaði alltaf þegar móðirin var ein með þá. Á ráðstefnu í Lundúnum hafði séð dæmi um móður sem hafði reynt að kæfa barn sitt af því að hún var með Münchausen by Proxy. Søren datt í hug hvort hér gæti verið við móður að glíma sem hefði þann sjúkdóm.

Eftirlit

Søren sneri sér til lögreglunnar vegna málsins. Hún var mjög efins til að byrja með en féllst á að fá úrskurð hjá dómara til að setja eftirlitsmyndavél upp á sjúkrahúsinu til að kanna hvort grunur yfirlæknisins væri á rökum reistur. Dómari féllst á kröfu lögreglunnar og eftirlitsmyndavél var sett upp í skiptiherberginu en þar höfðu mörg kastanna einmitt hafist. Það var mikilvægt að móðirin vissi ekki neitt um þetta og því sagði Søren vinnufélögum sínum að leggja þyrfti snúrur í gegnum skiptiherbergið vegna rannsóknar á loftgæðum.

Í 100 metra fjarlægð var komið upp aðstöðu fyrir lögregluna og þar sat Richard Andersen og fylgdist með án þess að starfsfólk sjúkrahússins vissi af því. Lögreglan gaf sér fjóra daga til að fylgjast með, að því loknu yrði rannsókninni hætt ef ekkert gerðist. Søren hafði lesið að Jesper fengi oft kast þegar rætt var um að hann færi heim. Á síðasta stofugangi sínum þessa vikuna sagði hann því við móður hans að stefnt væri að því að Jesper færi heim á mánudeginum. Hann reyndi á meðvitaðan hátt að ögra henni til að sjá hvort það væri hún sem stóð á bak við veikindi drengjanna.

Símtalið

Hjúkrunarfræðingurinn, sem svaraði í símann þegar Richard hringdi og sagði að eitthvað hryllilegt væri að gerast í skiptiherberginu, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Hún gekk samt sem áður að skiptiherberginu ásamt afleysingalækni, svona til öryggis. Um leið og þau gengu inn lyfti móðirin Jesper upp, hann var blár í framan og taldi hjúkrunarfræðingurinn að hann hefði fengið enn eitt kastið.

„Af hverju hringdirðu ekki í okkur?“ spurði hjúkrunarfræðingurinn. Móðirin náði ekki að svara áður en lafmóður maður í mikilli geðshræringu ruddist inn í herbergið. Það var Richard. Hann fékk lækninn með sér fram og fór með hann inn í eftirlitsherbergið. Þar sýndi hann honum upptökuna af móðurinni þar sem hún náði í pokarúllu. Síðan sást hún leggja poka á maga drengsins og færa hann upp eftir líkamanum og yfir andlit hans. Áður tók hún snuðið út úr honum. Um leið og Richard sá hana gera þetta vissi hann að þarna var komin fullkomin sönnun fyrir að það var móðirin sem hafði valdið veikindum sona sinna.

Skömmu eftir klukkan 19 var móðirin handtekin af Richard, grunuð um morð og misþyrmingar á Jesper.

Plastpoki
Móðirin náðist á á upptöku að vinna syni sínum mein.

Skildi þetta ekki

Þegar Bjarne hringdi á sjúkrahúsið til að ræða við eiginkonu sína um kvöldmatarleytið var honum sagt að hafa samband við rannsóknarlögregluna. Þá fékk hann að vita sannleikann, að eiginkona hans væri grunuð um að hafa myrt Andreas og að hafa reynt að kæfa Jesper með plastpoka.

Bjarne átti erfitt með að skilja þetta og spurði af hverju hún hefði gert þetta. Lögreglumaðurinn sagði að það væri vegna þess að eitthvað væri að henni. Bjarne átti samt sem áður erfitt með að skilja þetta. Hvernig gat móðir gert barni sínu þetta? Honum hafði aldrei dottið í hug að eiginkona hans ætti hlut að máli, hún hugsaði svo vel um drengina, var svo umhyggjusöm og hugrökk.

Í júní 1990 var eiginkona Bjarne dæmd í sex ára fangelsi fyrir ofbeldi og ofbeldi sem leiddi til dauða. Í kjölfarið skildu hún og Bjarne og hann flutti á nýjan stað með börn sín tvö.

Bjarne segir að það hafi alla tíð nagað hann að hugsanlega hefði verið hægt að komast fyrr að hinu sanna. Hvort hægt hefði verið að hlífa Jesper við ofbeldinu ef Andreas hefði verið krufinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 23 klukkutímum

Með þessu getur þú gert morgnana þína enn betri

Með þessu getur þú gert morgnana þína enn betri
Pressan
Fyrir 23 klukkutímum

Þessar fæðutegundir geta drepið ketti

Þessar fæðutegundir geta drepið ketti
Pressan
Í gær

Sonurinn skoðaði gamalt jólakort fjölskyldunnar – Sá undarlegan hlut á því – Sérð þú það sem hann sá?

Sonurinn skoðaði gamalt jólakort fjölskyldunnar – Sá undarlegan hlut á því – Sérð þú það sem hann sá?
Pressan
Í gær

Martröð á jólum sem endaði með björgunaraðgerð í anda hasarmynda

Martröð á jólum sem endaði með björgunaraðgerð í anda hasarmynda
Pressan
Fyrir 2 dögum

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland
Pressan
Fyrir 3 dögum

Danmörk – Játar að hafa banað nýfæddu barni sínu – Í annað sinn sem hún tengist máli af þessu tagi

Danmörk – Játar að hafa banað nýfæddu barni sínu – Í annað sinn sem hún tengist máli af þessu tagi