Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu.
Í fréttinni er haft eftir McCallum að það séu ekki bara Rússar sem reyni að gera erkifjendum sínum lífið leitt því frá árinu 2022 hafi stofnunin komið í veg fyrir allskonar ráðabrugg frá Íran, alls 20 aðskilin tilfelli.
Til marks um umfang þessara verkefna segir McCallum að breska leyniþjónustan telji sig hafa komið í veg fyrir 43 árásir á götum Bretlands frá árinu 2017 sem komin voru langt í undirbúningi. Var markmið þessara árása að drepa sem flesta.
En landslagið í þessum efnum virðist hafa verið að breytast samhliða vaxandi ófriði í heiminum. Segir McCallum að fyrstu tuttugu árin hans í embætti hafi stofnunin glímt við hryðjuverkaógnir frá ýmsum öfgahópum. Þetta sé að breytast og ógnin í vaxandi mæli að koma frá einstaka ríkjum.
McCallum segir til dæmis berum orðum að Rússar beri ábyrgð á „íkveikjum, skemmdarverkum og fleiri hættulegum gjörningum“ á götum Bretlands á undanförnum misserum.
Hann bendir á að rúmlega 750 rússneskum erindrekum hafi verið vísað frá ríkjum Evrópu eftir innrásina í Úkraínu, flestir þeirra voru njósnarar.
McCallum segir að þetta hafi haft áhrif á störf rússnesku leyniþjónustunnar sem í auknum mæli hefur þurft að reiða sig á óreyndari samverkamenn sem auðveldara er að koma auga á.