Robert Jarvis, starfsmaður fyrirtækisins, sagði í samtali við News 5 WCYB að þegar vatn byrjaði að streyma inn á bílastæðið og rafmagnið fór af verksmiðjunni hafi hann áttað sig á alvöru málsins. Hann flýtti sér út til að færa bílinn sinn og mætti þá einum yfirmanni sínum. Jarvis spurði hann hvort hann og hitt starfsfólkið gæti fengið frí til að þau gætu farið á öruggt svæði.
„Hún sagði nei! Tíu mínútum síðar kom hún aftur og sagði: „Nú megið þið fara heim.“ en það var um seinan. Það var bara ein leið inn og ein leið út og þegar við fengum að fara heim var vegurinn lokaður,“ sagði hann.
Starfsfólkið var kallað til vinnu þrátt fyrir að yfirvöld hefðu varað við fellibylnum og miklum eyðileggingarmætti hans.
Ellefu starfsmenn sópuðust á brott með vatnsflaumnum. Fimm var bjargað, staðfest hefur verið að þrír létust og þriggja er saknað.
Ríkislögreglan, The Tennessee Bureau of Investigation, hefur hafið rannsókn á málinu.