Veit hann hvenær þú kemur heim úr vinnunni og bíður spenntur eftir að komast í göngutúr? Situr hann við hliðina á þér á meðan hann bíður eftir að kvöldmatartíminn bresti á?
En hvernig veit hundurinn að nú er kominn tími til að borða eða fara í göngutúr?
Hundar hafa góða tilfinningu fyrir breytingum á birtustigi, hringrásum og lykt. Blanda af þessum þáttum hjálpar þeim að leggja mat á tímann og skilja rútínur fjölskyldunnar. „Það eru margir þættir sem gera að verkum að hundur veit að það er kominn tími til að borða – svengd, rútínur eigandans og líffræðileg hringrás hans,“ sagði Jason Rabe, dýralæknir, í samtali við Yahoo!
Will Bruner, sérfræðingur í atferli dýra við Lone Tree Veterinary Medical Center í Colorado í Bandaríkjunum, sagði að hundar fylgist vel með því sem fjölskyldan geri. Hundarnir hans sofi þegar hann sefur og um leið og hann fer að losa svefn, ef andardráttur hans breytist eða hann hreyfist aðeins í rúminu, þá vakni hundarnir. Þeir fylgi þeim merkjum sem fjölskyldan sendi frá sér.
Nýjar rannsóknir benda til að hundar séu líklega með líffræðilega klukku sem hjálpar þeim að vita hvenær það er tími kominn til að borða eða fara í göngutúr. Vísindamenn segja þetta vera blöndu af birtu, lykt og rútínum. Birtustigið hafi áhrif á svefnhringrás hundsins og þess utan séu þeir mjög næmir fyrir lykt.
Þegar fólk fer að heiman er lyktin af því til staðar á heimilinu í ákveðnu magni. Eftir því sem líður á daginn minnkar lyktin af því að fólkið er ekki til staðar. Hundurinn tekur eftir því þegar lyktin nær ákveðnu stigi og þá rís hann á fætur og fer að bíða við útidyrnar.