fbpx
Fimmtudagur 31.október 2024
Pressan

Hent úr pallborði CNN fyrir yfirgengilega hótun í beinni útsendingu – Fær aldrei að koma aftur í viðtal

Pressan
Þriðjudaginn 29. október 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þátttakanda í pallborði CNN var vísað á dyr eftir frekar vanstillt orðaskipti í þætti Abby Phillip. Þar áttu sér stað umræður um umdeildan kosningafund Donald Trump í New York, þegar einn þátttakandi gekk svo langt út fyrir velsæmismörk að hann er nú kominn á bannlista hjá CNN.

Umræðurnar snerust um kosningafund Donald Trump sem fór fram í New York á dögunum. Fundurinn hefur vakið illt umtal og þykir sumum að þar hafi framboð repúblikana daðrað full mikið við nasisma. Pallborðið ræddi um fundinn þar sem kom fram samlíking við samkomur nasista forðum.

Mættur í pallborð var íhaldsmaðurinn Ryan Girdusky sem er helst þekktur fyrir að vera stofnandi samtaka sem nefnast 1776 Project PAC. Þetta eru samtök sem segjast styðja við umbætur í menntakerfinu en gera það þó helst undir þeim formerkjum að bjarga þurfi skólabörnum frá vinstri innrætingu. Annar gestur pallborðsins var hinn framsækni fjölmiðlamaður Mehdi Raza Hasan. Hann er fæddur og uppalinn í Bretlandi en foreldrar hans voru innflytjendur frá Indlandi og fjölskyldan er múslimatrúar, en trú fjölmiðlamannsins er tilgreind út af samhengi fréttarinnar.

Hótun eða brandari?

Eftir að repúblikönum á kosningafundinum var líkt við nasista móðgaðist Girdusky. Hann benti Hasan á að líklega ætti fjölmiðlamaðurinn að móðgast líka enda hafi hann, umfram aðra í pallborðinu, verið kallaður gyðingahatari fyrir að styðja Palestínu í átökum þeirra við Ísrael.

Hasan taldi þó ekkert tilefni til að móðgast. Stuðningur hans sé við fólkið í Palestínu en ekki við hryðjuverk Hamas-samtakanna. Þá komu ummæli Girdusky sem settu allt á hliðina:  „Ég vona að símboðinn þinn fari ekki að gefa frá sér hljóð.“

Ekki var um að villast að Girdusky vísaði þar til þess þegar símboðar Hezbollah-samtakanna sprungu í höndum Hezbollah-liða í Líbanon í september. Ísrael bar ábyrgð á sprengingunum og manntjónið var töluvert. Ekki liggur fyrir hvers vegna Girdusky fór að blanda Hezbollah í umræðuna, en líklegt þykir þó að hann leggi samtökin að jöfnu við Hamas-samtökin í Palestínu.

Hasan varð þó slegin yfir þessu skoti og spurði í forundrun:  „Varstu að segja að ég ætti að deyja? Þú varst að segja að það ætti að drepa mig“

Girdusky reyndi að draga í land: „Nei. Nei ég sagði það ekki.“

Hasan sneri sér þá að Abby Phillip, sem stýrði pallborðsumræðunni: „Var gesturinn þinn að segja, í beinni útsendingu, að ég ætti að vera drepinn?“

Fjölmiðlamaðurinn sagði galið að CNN hefði fengið til sín mann í pallborð sem sé tilbúinn, í beinni útsendingu, að hvetja til þess að „músliminn skuli sprengdur í loft upp.“

Girdusky varð greinilega ljóst að hann hefði gengið of langt. Hann reyndi að réttlæta sig með því að hafa misheyrst það sem Hasan sagði. Hann taldi fjölmiðlamanninn hafa lýst yfir stuðningi við Hamas. Hasan gaf ekkert fyrir afsökunarbeiðnina. „Já einmitt, ég mætti til CNN og lýsti yfir stuðningi við Hamas, hvers konar fábjáni heldurðu að ég sé? Þetta er galinn afsökun.“

Bannaður frá CNN og gífurlega ósáttur

Þáttastjórnandi reyndi ítrekað að stilla til friðar og fordæmdi íhaldsmanninn fyrir ummælin. Aldrei á hennar ferli hafi viðmælandi gengið svona langt yfir strikið. Loks ákvað hún að skipta yfir í auglýsingar.

Þegar þátturinn fór aftur í loftið voru bæði Girdusky og Hasan farnir. Abby Phillip bað áhorfendur og Hasan innilega afsökunar og sagði Girdusky hafa gengið langt yfir velsæmismörk og við það verði ekki unað. Síðar greindi hún frá því á samfélagsmiðlum að Girdusky var vísað á dyr en Hasan hvattur til að sitja áfram. Það hafi fjölmiðlamaðurinn ekki treyst sér til að gera.

Talsmaður CNN gaf í framhaldinu út að Girdusky verði ekki boðið aftur að tjá sig hjá miðlinum. „Það er ekkert umburðarlyndi fyrir kynþáttafordómum og ofstæki hjá CNN eða í útsendingum okkar. Við viljum stuðla að ögrandi skoðanaskiptum og rökræðum einstaklinga sem eru á andstæðum pólum til þess að kafa ofan í mikilvæg málefni ná fram sameiginlegum skilning. En við munum ekki leyfa það að talað sé niður til gesta okkar eða að gengið sé út fyrir velsæmismörk. Ryan Girdusky er ekki lengur velkominn hjá miðlinum okkar.“

Girdusky sá því enga ástæðu til að halda aftur að sér þegar heim var komið. Hann brást ókvæða við yfirlýsingu CNN og skrifaði reiðifærslu á samfélagsmiðla:

„Þú mátt vera áfram hjá CNN þó þú ranglega kallir alla repúblikana nasista og þú þú hafir þegið peninga frá fjölmiðlum sem er haldið uppi frá Katar. En þú mátt greinilega ekki mæta til CNN ef þú segir brandara. Ég er ánægður að Bandaríkin fá að sjá hvað CNN stendur og fellur með.“

Hasan starfaði áður sem blaðamaður hjá Al-Jazeera sem er að hluta til fjármagnaður af yfirvöldum í Katar. Hasan hefur ekki tjáð sig frekar um atvikið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Nostradamus og Baba Vang settu fram sama hrollvekjandi spádóminn fyrir 2025

Nostradamus og Baba Vang settu fram sama hrollvekjandi spádóminn fyrir 2025
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hvað varð um Carole-Ann Boone sem giftist Ted Bundy?

Hvað varð um Carole-Ann Boone sem giftist Ted Bundy?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Metnaðarfullt verkefni NASA er hafið – Leita að lífi á tunglum Júpíters

Metnaðarfullt verkefni NASA er hafið – Leita að lífi á tunglum Júpíters
Pressan
Fyrir 3 dögum

Loftsteinninn sem gerði út af við risaeðlurnar var ekki sá eini sinnar tegundar

Loftsteinninn sem gerði út af við risaeðlurnar var ekki sá eini sinnar tegundar