En samkvæmt frétt Daily Mail þá er komið babb í bátinn hjá Cruise og félögum því svo virðist sem ekki hafi verið fengið byggingarleyfi fyrir tjaldið sem hátíðin fer fram í þetta árið.
Segir miðillinn að Mid Sussex District Council hafi gefið út tilkynningu um brot á byggingarlöggjöfinni þar sem tjaldið er of stórt.
Samkvæmt enskum lögum þá þarf tímabundin „bygging“ ekki byggingarleyfi ef hún er innan við 100 fermetrar og verður fjarlægð innan 28 daga.
En það er einmitt vandamálið því tjaldið er miklu stærra en 100 fermetrar og þess utan hefur það staðið mun lengur en 28 daga.
Karin Pouw, talskona Vísindakirkjunnar, sagði að ekki sé um brot á reglum að ræða. Vísindakirkjan eigi í góðu samstarfi við yfirvöld til að tryggja að farið sé að lögum og reglum og það mikilvægasta sé að tryggja öryggi þeirra mörg þúsund gesta sem sækja þessa árlegu hátíð í Bretlandi.
Venjulega sækja um 3.000 manns þessa hátíð og það verður að teljast ólíklegt að tjald, sem er innan við 100 fermetrar á stærð, geti tekið við svo miklum fjölda.
En ólíklegt er talið að málið muni hafa einhverjar afleiðinga fyrir Vísindakirkjuna því hún hefur 21 dag til að bregðast við bréfi yfirvalda og þar sem hátíðin fer fram á laugardaginn þá verður væntanlega búið að taka tjaldið niður áður en svarfresturinn rennur út.