Joe Rogan er tvímælalaust einn vinsælasti hlaðvarpsstjórnandi í heimi, þó hann sé samtímis umdeildur. Því kemur ekki á óvart að forsetaframbjóðandinn Donald Trump mætti í langt viðtal til hans. Rogan veigraði sér þó ekki við að spyrja ágengra spurninga og hafði ekki fyrir því að halda aftur að hlátrinum ef svarið var út í hött.
Trump hefur lengi haldið því fram að hann hafi réttilega verið endurkjörinn forseti árið 2020. Hins vegar hafi demókratar og frambjóðandi þeirra, Joe Biden, stolið kosningunum og þar með svikið kjósendur. Yfirlýsingar Trump um þetta urðu svo til þess að áhlaup var gert á þinghús Bandaríkjanna í janúar árið 2021, en þar freistuðu stuðningsmenn þess að koma í veg fyrir að kjör Biden yrði staðfest. Trump verður tíðrætt um þetta meinta kosningasvindl og fór að sjálfsögðu að ræða það við Rogan. Rogan ákvað þó að spyrja nákvæmlega hvernig kosningunum var stolið.
Trump kom með eftirfarandi svar: „Ég vann með, eða ég tapaði með, eða ég tapaði sko ekki.“
Þetta skýra svar varð til þess að Rogan fór að hlæja, en Trump hélt áfram:
„Þau segja að ég hafi tapað Joe, þau segja að ég hafi tapað með 22 þúsund atkvæðum. Það er eins einn, einn tíundi úr prósenti, minna en það. Það er pínulítill munur. Tuttugu og tvö þúsund atkvæði sem dreifðust yfir þennan tíma.“
Og áfram hélt hann:
„51 leyniþjónustumaður lugu, þeir lugu, þeir vita að Hunter átti þetta, þetta kom frá rúminu hans. Þau segja að Rússarnir hafi gert þetta, Rússarnir, Rússarnir, Rússarnir. Þetta var Rússa-svindl.“
I won.
I lost.
I didn’t lose.
They say I lost.
Rogan: Hahaha.
This is fucking madness.pic.twitter.com/5D6BDRAhk4— Jo (@JoJoFromJerz) October 26, 2024
Rogan gafst þó ekki upp og bað Trump að nefna dæmi þessi meintu kosningasvik.
„Byrjum efst með einföldustu dæmunum. Þau áttu að fá samþykki löggjafans til að gera það sem þau gerðu og það gerðu þau ekki í mörgum tilvikum, þau fengu ekki slíkt samþykki.“
Þá spurði Rogan hvað demókratar áttu nákvæmlega að hafa fengið samþykki fyrir, en Trump svaraði bara með „hvaðeina“.
„Eins og framlenging á kosningunum, utankjörfundaratkvæðin. Allir þessi ólíku hlutir sem að lögum þeim bar að fá samþykki löggjafans fyrir. Þú þarft ekki að horfa lengra en það“
Vísaði Trump þá til þess að árið 2020 var enn tekið við utankjörfundaratkvæðum í tæpa viku eftir kjördag, svo lengi sem atkvæðin höfðu verið póstlögð fyrir kjördaginn. Mikið af kjósendum demókrata nýta sér það að kjósa utan kjörfundar og því reyndist þessi frestur Trump dýrkeyptur.
Trump nefndi sem dæmi ríkið Wisconsin og hélt því fram að þar hafi bókstaflega verið viðurkennt að kosningunum hafi verið stolið með fölsuðum kjörseðlum. Rétt er þó að geta þess að Trump framboðið hefur til þessa ekki lagt fram neinar sannanir fyrir þessum fullyrðingum.
Rogan spurði þá hvort Trump ætlaði sér einhvern tímann að færa sönnur fyrir þessu og þá svaraði Trump einfaldlega með „uh“ og hélt svo langa ræðu um Rússland og fartölvu Hunter Biden, sem er sonur Joe Biden forseta.
Trump talaði líka um niðurstöðu kosninganna árið 2020 á kosningafundi í Michigan fyrr í þessum mánuði en þar hélt hann því fram að þó honum hafi gengið vel í kosningunum árið 2016, þegar hann var kjörinn forseti, þá hafi honum gengið betur árið 2020. Því hefði hann réttilega átt að vera endurkjörinn, hefði kosningunum ekki verið stolið.
„Þið verðið að segja Kamala Harris að þetta sé ástæðan fyrir því að ég er að bjóða mig fram aftur, ef ég tryði því að ég hefði tapað, þá myndi ég ekki bjóða mig fram. Vitiði hvað ég væri þá að gera? Ég væri kannski bara á ströndinni í Monte Carlo, eða annars staðar. Að lifa góðu lífi.“
Rétt er að geta þess að almennt þykir Trump hafa komið vel fyrir hjá Rogan og á innan við sólarhring eftir að viðtalið birtist höfðu tugir milljóna horft á það, sem þykir nokkuð vel af sér vikið enda viðtalið um 3 klukkustundir að lengd. Rogan sagði sjálfur að hann hafi boðið mótframbjóðandanum, Kamala Harris, að koma í viðtal og vonar hlaðvarpsstjórnandinn að hún þiggi það boð enda ætli Rogan að nálgast hana sem manneskju, alveg eins og hann gerði við Trump. Þó Rogan hafi gjarnan verið orðaður við öfga-hægrið þá skilgreinir hann sig ekki sem slíkan. Hann segist frjálslyndur og hefur sterkar skoðanir, margar hverjar sem teljast til hægri en að sama bragði margar sem teljast til vinstri. Hann á þó sameiginlegt með mörgum hægri mönnum að vera mikill talsmaður tjáningarfrelsis og mikill andstæðingur útilokunarmenningar.