Fyrir stuttu vakti myndband af hundi mikla athygli í netheimum og hefur fengið á þriðja tug milljóna áhorfa. Það væri kannski ekki í frásögur sögur færandi nema af því að hundurinn gerði sér lítið fyrir og prílaði upp á einn af pýramídunum í Giza í Egyptalandi, sem eru eins og flestir ættu að vita meðal sögufrægustu mannvirkja mannkyns.
Það var hinn bandaríski Marshall Mosher sem sá hundinn þegar hann var á svifflugi yfir pýramídunum en Mosher notast mikið við vélknúin svifflugdreka.
Hann er iðulega með myndavél í gangi þegar hann er á flugi og átti því auðvelt með að taka myndband af hundinum uppi á pýramídanum. Myndbandið, sem hann birti á Instagram-síðu sinni fyrr í þessum mánuði, fékk eins og áður segir mikið áhorf og fór eins og eldur í sinu um netheima. Fjölmiðlar víða um heim hafa fjallað um þetta mikla þrekvirki hundsins.
Myndbandið af hundinum, eins og það birtist á Instagram-síðu Mosher, uppi á pýramídanum má sjá hér fyrir neðan. Sjáist myndbandið ekki er ráðlegt að endurhlaða síðuna en tengil á myndbandið má nálgast hér:
View this post on Instagram
Í umfjöllun tímarits Smithsonian-stofnunarinnar kemur fram að Mosher hafi verið að taka þátt í viðburði þar sem fólk alls staðar úr heiminum kemur saman og flýgur yfir pýramídana á vélknúnum svifflugdrekum.
Margir í hópnum sáu dýr uppi á pýramídunum og héldu sumir í fyrstu að þetta væri fjallaljón en fljótt var komist að þeirri niðurstöðu að þetta gæti vart verið annað en einn af flækingshundunum sem halda til við pýramídana.
Hundurinn virtist una vel við sinn hag á pýramídanum. Hann sást hlaupa og heyrðist gelta hátt og snjallt.
Um var að ræða næststærsta pýramídann í Giza, en hann er nefndur Kafra á arabísku og er samkvæmt Wikipedia 136,4 metra hár.
Sumir af þeim sem tóku þátt í sviffluginu yfir pýramídunum kölluðu hundinn konung pýramídanna. Í athugasemdum við myndbandið sögðu sumir, líklega í meira gamni en alvöru, að ekki væri um hund að ræða heldur egypska guðinn Anubis, sem er guð látinna í egypskri goðafræði og talinn er iðulega taka á sig mynd sléttuúlfs.
Margir í athugasemdum við myndbandið lýstu yfir áhyggjum af því hvort að hundurinn myndi komast aftur niður.
Mosher fór að pýramídanum daginn eftir að hann tók myndbandið og sá hundinn hvergi. Hann hafði þó ekki miklar áhyggjur og taldi hundinn það úrræðagóðann að hann hlyti að komast aftur niður.
Tveimur dögum síðar birti Mosher annað myndband á Instagram-síðu sinni en sama myndband birtist á Instagram-síðu ferðamálaráðs Egyptalands. Í því sést hundur sem svipar til hundsins í fyrra myndbandinu klifra niður pýramída. Í skjátexta yfir klifri hundsins niður á við stendur:
„Týndi hundurinn sem býr uppi á pýramídunum kom aftur niður.“
Það myndband má sjá hér fyrir neðan en ekki er fullkomlega ljóst hvort um sama hund sé að ræða í báðum myndböndum en þeir eru að minnsta kosti ansi líkir. Sjáist myndbandið ekki er ráðlegt að endurhlaða síðuna en tengil á myndbandið má nálgast hér.
View this post on Instagram
Í færslunni þar sem myndbandið er birt segir meðal annars.
„Hver segir að það séu bara manneskjur sem eltast við söguna“
Mosher hefur nýtt þá athygli sen hann hefur fengið vegna myndbandsins til að vekja athygli á starfi samtaka sem einblína á að hjálpa þeim fjölda hunda sem eru á flækingi í Egyptalandi en talið er að fjöldinn sé á annan tug milljóna. Eins og þetta myndband sýnir þá eru a.m.k. sumir þeirra hugumstórir.