fbpx
Föstudagur 17.janúar 2025
Pressan

Milljónamæringurinn sem myrti konuna sína – Eitt umtalaðasta sakamál síðari ára

Pressan
Laugardaginn 26. október 2024 22:00

Peter Chadwick og Quee Choo. Mynd:Newport Police Department

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá 2012 til 2019 var Peter Chadwick á lista bandarísku lögreglunnar yfir þá sem hún vildi allra helst ná og handtaka. Saga hans er ótrúleg en óhætt er að segja að hann hafi logið, svikið og myrt áður en hann lét sig hverfa.

Októberdag einn 2012 stóðu tveir drengir á biðstöð í Newport Beach í Kaliforníu og biðu eftir að verða sóttir. Þeir voru 9 og 12 ára. Faðir þeirra var vanur að vera stundvís en þennan dag skilaði hann sér ekki og ekki heldur móðir þeirra. Svona aðstæður koma oft upp, yfirleitt fyrir misskilning. En svo var ekki þennan dag. Þetta var upphafið að einu umtalaðasta morð- og mannshvarfsmáli síðari tíma í Bandaríkjunum.

Áhyggjufullur nágranni hringdi i lögregluna þegar foreldrar drengjanna skiluðu sér ekki heim. Lögreglumenn komu að heimili þeirra um klukkan 19. Drengirnir voru ekki með lykil og komust ekki inn. Lögreglumenn brutu sér leið inn í húsið en þar inni var ekki margt sem benti til að eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað, svona við fyrstu sýn. Það var frekar hreint og skipulagt en þó voru nokkur atriði sem stungu í stúf.

Glerbrot og blóðblettir voru í og við baðkarið.

Í eldhúsinu voru tveir diskar á matarborðinu og greinilegt að fólk hafði verið byrjað að borða hádegismat en hafði síðan staðið upp frá honum. Dyrnar úr húsinu inn í bílskúrinn voru ólæstar og bíllinn var horfinn. Peningaskápur fjölskyldunnar var opinn. Á efri hæðinni höfðu nokkur glös verið brotin og það virtust vera litlir blóðblettir á veggjum og í baðkarinu. Ekki var tangur né tetur að sjá af Peter Chadwick eða konu hans, Quee Choo. Skyndilega leit þetta út eins og brotavettvangur í augum lögreglumannanna.

Venjuleg fjölskylda

Chadwick fæddist í Bretlandi 1964. Hann er 170 cm á hæð, grannur, brúnhærður, bláeygður og hafði auðgast á fasteignaviðskiptum í Kaliforníu. Hann vann heima. Eiginkona hans, Quee Choo, var kölluð QC en hún var frá Malasíu. Hún var heimavinnandi og synirnir voru miðpunktur tilveru hennar. Hún hefði ekki gleymt að sækja þá í skólann.

Fjölskyldan bjó í góðu hverfi og drengirnir gengu í dýran og góðan skóla. Auk þeirra tveggja fyrrnefndu áttu þau 15 ára son sem var í heimavistarskóla. Synirnir voru allir sagðir kurteisir og góðir námsmenn. Ekki var annað að sjá en fjölskyldan lifði fullkomnu bandarísku lífi og sá grunur læddist að lögreglunni að foreldrarnir hefðu orðið fyrir barðinu á glæpamönnum en fljótlega tók málið nýja stefnu.

Daginn eftir, þann 11. október, var hringt í neyðarlínuna í San Diego. Það var Peter Chadwick sem hringdi:

„Peter: Konan mín er dáin.

Neyðarvörður: Hvar er hún?

Peter: Þeir tóku hana. Þeir tóku hana.

Neyðarvörður: Hverjir tóku hana?

Peter: Náunginn sem braust inn í húsið mitt. Hann ók mér hingað með vini sínum. Þeir óku í burtu í pallbíl.

Neyðarvörður: Er konan þín með þeim?

Peter: Hún er dáin.

Neyðarvörður: Dó hún í húsinu og tóku þeir líkið?

Peter: Já, þeir drápu hana í gær. Við höfum verið á ferðinni síðan. Í Newport Beach.“

Í yfirheyrslum sagði Chadwick að iðnaðarmaður að nafni Juan hefði komið til að sinna verkefni. Hann lýsti því í smáatriðum hvernig konan hans hefði öskrað og hann hefði hlaupið henni til aðstoðar. Hann hafi komið að Juan með hendurnar á hálsi hennar. Hann sagðist ekki hafa náð að stöðva hann og hafi verið ógnað með hníf og neyddur til að taka peninga með og fara með og grafa líkið í skógi. Vinur Juan var að sögn með í för.

Eitthvað passaði ekki

Chadwick sagði að hann hefði verið neyddur til að taka peninga með og að þeir hefðu ekið á brott og haft lík QC með. En lögreglumenn efuðust um sannleiksgildi frásagnarinnar. Hann gat ekki gefið neina lýsingu á mönnunum og sagðist bara muna að annar héti Juan og væri dökkhærður og hafi talað spænsku við vin sinn.

Starfsfólk á bensínstöðinni, sem hann hringdi í neyðarlínuna frá, sagði að hann hafi virst mjög rólegur allt samtalið. Í yfirheyrslum virtist hann stundum ringlaður þegar hann sagði sögu sína en var annars í góðu standi. Lögreglumenn segja að hann hafi getað setið með höfuð sitt í lófunum og virst gráta en hafi hvorki verið rauðeygður né með vot augu á eftir.

En það sem lögreglumönnunum fannst undarlegast var að Chadwick nefndi synina aldrei og spurði ekki eftir þeim eða líðan þeirra. Í aftursætinu á bíl hans fann lögreglan ferðatösku með karlmannsfatnaði í hans stærð og giftingarhring QC.

Giftinarhringurinn fannst í aftursætinu. Mynd:Newport Police Department

Chadwick var með smávegis yfirborðsáverka á líkamanum, klór, bitför og marbletti. Einnig voru blóðblettir á fötum hans. Hann stóð fast á því að Juan hefði drepið QC. En Bryan Moore, sem stýrði rannsókninni, taldi eitthvað ekki passa.

Það var ekkert sem studdi frásögn Chadwick og þess utan var hún mjög ótrúverðug. Áverkarnir á líkama hans voru dæmigerðir áverkar eftir manneskju sem reynir að verjast árás. Þeir studdu ekki skýringar hans um að hann hefði slegist við vopnaða ræningja.

Áverkarnir studdu ekki frásögn hans. Mynd:Newport Police Department

Þegar hér er komið við sögu er lögreglan sannfærð um að Chadwick segi satt um að QC sé látin en hún er einnig sannfærð um að hann hafi átt hlut að máli. Þetta var á fimmtudegi. Synirnir fóru í skólann eins og venjulega en voru mjög órólegir því þeir höfðu ekki enn fengið neinar upplýsingar um foreldra sína. Síðdegis á fimmtudeginum sóttu lögreglumenn þá í skólann og var farið með þá til frænda þeirra, David, móðurmeginn. Um kvöldið fengu þeir að vita að móðir þeirra væri dáin og að faðir þeirra væri í varðhaldi, grunaður um að tengjast andláti hennar.

Líkið fannst

Um viku síðar fann lögreglan lík QC eftir mikla leit. Það fannst í gömlum bláum gámi við fáfarinn veg. Það var vafið inn í grænt teppi og falið undir rusli. Það var óþefur og flugnager sem varð til þess að lögreglumaður fann það. Hjá líkinu voru 10.000 dollarar, skartgripir og vegabréf sonanna. Chadwick hafði sagt lögreglunni að hann hefði látið Juan fá þetta þegar honum var ógnað með hníf.

Líkið fannst í þessum gámi. Mynd:Newport Police Department

Leyndarmálin

Rannsóknin leiddi í ljós að sú mynd sem fólk hafði af fjölskyldunni var ekki í samræmi við raunveruleikann. QC var gríðarlega skipulögð og upptekin af sonunum sem hún umvafði kærleika og ást. Chadwick var hins vegar ósáttur við fjölskyldulífið. Orðrómur var um yfirvofandi skilnað. Vinir þeirra höfðu séð QC gráta af því að Chadwick veitti henni enga athygli. Einnig voru vísbendingar um að hann væri að halda framhjá henni.

Innan um fatnað QC fannst handskrifað blað þar sem var númeraður listi yfir leitarniðurstöður í tölvu Chadwick. Hann hafði meðal annars leitað upplýsinga um kostnað við fóstureyðingar í Kaliforníu, kínverskar fylgdarkonur og hvernig ætti að pynta.

Blaðið sem fannst. Mynd:Newport Police Department

Hann var ákærður fyrir morð en látinn laus gegn greiðslu tryggingar upp á eina milljón dollara. Bæði bandaríska og breska vegabréfið voru tekin af honum. Hann gat haldið jól utan fangelsisins. En í staðinn fyrir að endurbyggja sambandið við synina byrjaði hann að skipuleggja flótta sinn.

Flóttinn

Næstu tvö ár fór hann eftir þeim skilyrðum sem honum voru sett með lausn gegn tryggingu. Hann var með tilkynningarskyldu hjá lögreglunni og heimsótti syni sína reglulega en þeir bjuggu hjá ættingjum. Snemma í janúar 2015 hætti hann að heimsækja syni sína og fóru ættingjar að óttast að hann gæti hafa fyrirfarið sér.

Lýst var eftir honum og lögreglan rannsakaði hvarf hans. Í ljós kom að hann hafði selt allt sem fjölskyldan átti, tekið eins mikið út á kreditkort sín og hann gat og látið sig hverfa með eina milljón dollara í reiðufé. Hann skildi syni sína eftir, foreldralausa og eignalausa.

Lögreglan leitaði að honum og lýst var eftir honum á alþjóðavettvangi.

„Hann getur verið hvar sem er í heiminum. Hann gæti verið nágranni þinn. Það gæti verið hann sem raðar í pokann þinn í búðinni. Hann getur verið alls staðar en það ert þú líka,“

sagði Bryan Moore, sem stýrði leitinni að honum, í hljóðvarpi lögreglunnar en hún gerði sex þætti um mál Chadwick. Lögreglan taldi að hann gæti hafa breytt útliti sínu og komist úr landi.

Í hlaðvarpinu ávarpaði lögreglan hann beint:

„Peter. Þessu er lokið. Þú tókst ákvörðun um að myrða QC, svipta synina móður sinni. Þú valdir að yfirgefa syni þína í vegarkantinum til að bjarga sjálfum þér og flýja án þess að taka afleiðingum gerða þinna. Byrjaðu að bæta sambandið við syni þína. Einu sinni til tilbreytingar skaltu taka ákvörðun með hagsmuni annarra en þín sjálfs í huga. Við vitum báðir að þú flúðir því þú gast ekki horft í auga sona þinna. Nú er tækifæri til að binda enda á þetta. Hugsaðu um syni þína.

Peter, við komum og náum þér. Klukkan tifar niður að handtöku.“

Chadwick var handtekinn í Mexíkó þann 04. ágúst 2019 og var síðan framseldur til Bandaríkjanna.

Í febrúar 2022 játaði Chadwick að hafa myrt eiginkonu sína. Hann var dæmdur í að lágmarki 15 ára fangelsi og allt að ævilangt fangelsi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Arfleiddi lítinn franskan bæ að 10 milljónum evra – Kom aldrei þangað í lifanda lífi

Arfleiddi lítinn franskan bæ að 10 milljónum evra – Kom aldrei þangað í lifanda lífi
Pressan
Fyrir 2 dögum

Vaxandi áhyggjur af að skjöl varðandi Elísabetu II verði ritskoðuð

Vaxandi áhyggjur af að skjöl varðandi Elísabetu II verði ritskoðuð
Pressan
Fyrir 3 dögum

Trump birtir gervisamtal við Obama

Trump birtir gervisamtal við Obama
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þingkona sökuð um vanþekkingu eftir galna færslu – Beðin um að halda sig við sitt eigið sérsvið

Þingkona sökuð um vanþekkingu eftir galna færslu – Beðin um að halda sig við sitt eigið sérsvið
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þýskt par myrti úkraínska flóttamenn til að stela kornabarni

Þýskt par myrti úkraínska flóttamenn til að stela kornabarni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Harðlínumaður lýsir yfir stríði gegn Musk – „Ég mun láta svæla hann héðan út fyrir innsetningarathöfnina“ 

Harðlínumaður lýsir yfir stríði gegn Musk – „Ég mun láta svæla hann héðan út fyrir innsetningarathöfnina“ 
Pressan
Fyrir 4 dögum

Vara fólk við að borða jólatré

Vara fólk við að borða jólatré
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Spámaður“ sem sá morðtilræðið við Trump fyrir með hryllilega spá

„Spámaður“ sem sá morðtilræðið við Trump fyrir með hryllilega spá