Hauskúpan fannst inni í vegg þegar verið var að taka húsið í gegn og lengi vel vissi enginn af hverjum hún var eða hvernig hún komst þangað.
Nú hefur DNA-rannsókn leitt í ljós að höfuðkúpan var af konu sem hét Esther Granger. Esther þessi fæddist í Indiana árið 1848 og var aðeins 17 ára þegar hún lést árið 1866, fyrir rúmum 150 árum.
Dánardómstjórinn í Kane-sýslu blés til blaðamannafundar í gær þar sem þetta var tilkynnt.
Talið er að Esther hafi látist af barnsförum en þökk sé þróun DNA-tækninnar komust vísindamenn að nafni ungu konunnar.
Fram kemur í frétt CNN að Esther hafi verið grafin í kirkjugarðinum í Merriville í Indiana en rúmum hundrað árum síðar, árið 1978, fannst svo höfuðkúpan af henni inn í fyrrnefndum vegg í úthverfi Chicago. Húsráðendur höfðu samband við lögreglu sem hóf rannsókn málsins en hún skilaði litlu sem engu í mörg ár.
Það var svo árið 2021 að hauskúpan fannst í geymslu Batavia Depot-safnsins í Illinois. Hún var svo send til fyrirtækis í Texas, Othram, sem sérhæfir sig í DNA-rannsóknum og þá fóru hjólin að snúast.
Starfsmönnum fyrirtækisins tókst með mikilli vinnu að finna núlifandi skyldmenni Estherar og var það endanlega staðfest af hvaða manneskju hauskúpan væri þegar Wayne Svilar, barnabarnabarnabarn Estherar gaf DNA-sýni.
Enn er á huldu hvernig hauskúpan endaði inni í vegg á heimili í Chicago en yfirvöld telja að grafarræningjar hafi tekið hana í óljósum tilgangi.