fbpx
Föstudagur 25.október 2024
Pressan

Horfðist í augu við dauðann í 127 klukkustundir – Saga fjallagarpsins sem skar af sér handlegginn með bitlausum vasahníf

Pressan
Þriðjudaginn 22. október 2024 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fáir þekkja það betur að vera milli steins og sleggju og fjallagarpurinn Aron Ralston og fáir hafa hafa horfst í augu við dauðann með sama hætti og lifað til að segja söguna.

Þessum unga vélaverkfræðing þyrsti í ævintýri, útivist og spennu. Árið var 2003 og nokkrum árum áður hafði Aron gefist upp á tilbrigðalausri skrifstofuvinnu og snúið sér alfarið að fjallamennsku. Þann 26. apríl 2003 var hann staddur í Blue-John gljúfrinu í Utah. Hann lenti þá í því, á miðju klettabelti, að grjót sem hann reyndi að ná handfestu á steyptist yfir hann og klemmdi hægri hönd hans fasta við klettabeltið.

Bitlaus vasahnífur og rökhugsun

Hvað átti hann nú að gera? Hann hafi farið til Utah án þess að láta fjölskyldu sína vita. Hann var hvorki með farsíma né talstöð og langt frá alfaraleið. Það versta var að hann hafi reiknað með stuttu og laggóðu ferðalagi svo eina nestið hans voru tvær vefjur, smá af sælgæti og einn vatnsbrúsi.

Hann reyndi eins og hann gat að láta birgðirnar endast á meðan hann reyndi vonleysislega að mylja úr þessum risastóra hnullung sem ógnaði framtíð hans. Hann hélt sér vakandi og reyndi að halda rökhugsun, þannig kæmist hann í gegnum þessa þolraun.

Næstu tvo dagana reyndi hann allt sem honum datt í hug til að losa sig. Hann reyndi að nota reipin sem hann hafði meðferðis og vogarafl til að losa steininn, reyndi að brjóta grjótið – en ekkert gekk. Hann var við það að gefast upp og eftir stóð aðeins að losa hann sjálfan frá fasta handleggnum.

Hann hafði lítinn vasahníf með sér sem var svo bitlaus að hann gat ekki einu sinni skorið hár sitt með honum. Svo ekki myndi sá gagnast honum. En handleggurinn hafi verið klemmdur í rúma tvo daga og Aron áttaði sig á því að hann gat notað vasahnífinn eins og rýting og stungið honum beint inn í handlegginn. En þá rakst hnífurinn á beinið og Aron missti móðinn. Hnífurinn kæmist ekkert frekar í gegnum bein heldur en í gegnum grjótið.

Aron taldi ljóst að hann myndi aldrei komast úr gljúfrinu. Á fimmta degi var vatnið löngu búið og Aron drakk nú sitt eigið hland til að halda í sér lífinu. Hann var þó farinn að finna fyrir frið. Hann hafði reynt allt, hann var þreyttur og tilbúinn undir svefninn langa. Hann skar nafn sitt í klettavegginn og tók upp kveðju til fjölskyldu sinnar á myndavél sem hann hafði meðferðis.

Birtist sýn af litlum dreng

Aðfaranótt sjötta dagsins var Aron kominn með hita og þjáðist af miklu hungri og vökvaskort. Hann fór þá að sjá ofsjónir og birtist honum lítill drengur. Aron sagði í samtali við Guardian: „Ég horfi á sjálfan mig utan frá leika við þennan dreng og það vantar á mig hægri handlegginn. Ég sé mig taka drenginn í fangið og hann horfir á mig með sérstökum svip og spyr: Pabbi getum við leikið núna? Ég vissi af þessum svip að hann væri sonur minn, þetta væri framtíðin. Ég átti eftir að upplifa þetta. Og þess vegna ákvað ég að lifa nóttina af“

Hann vaknaði morguninn eftir ákveðinn og reiður. Hann ætlaði ekki að deyja friðsamlega í þessu gljúfri, ekki fyrr en hann hefði reynt allt til að eignast framtíðina sem hafði birst honum kvöldið áður. Í þessari reiði fann hann lausn á vandamálinu – hann gæti ekki skorið í gegnum beinin í handleggnum, en hann gæti brotið þau.

Aron sagði í samtali við NPR:

„Þegar ég áttaði mig á því hvernig ég gæti losað mig þá var þetta besta hugmynd í heimi og fallegast reynsla sem ég mun eiga því það fylgdi þessu ólýsanleg vellíðan og ekki snefill af hrylling. Ég var að fá lífið mitt til baka eftir að hafa verið dáinn“

Hann kastaði sér utan í steininn til að brjóta beinin í handleggnum. Eftir það var leikur einn að nota bitlausa vasahnífinn til að skera í gegnum húðina og í gegnum vöðvann. Það tók hann um klukkustund að aflima sjálfan sig, en hann fór þetta á adrenalíni. Og þrátt fyrir bágt ástand notaði hann enn rökhugsun. Hann beið eins og hann gat með að skera á stærstu æðarnar, enda þyrfti hann þá að hafa hendur hraðar við að stöðva blæðinguna. Hann þurfti svo eins að koma sjálfum sér niður gljúfrið og svo þyrfti hann að geta gengið eftir hjálp sem tæki líklega um 10 klukkustundir. Hann klippti á sinarnar með naglaklippunum á vasahnífnum og loks, þegar hann hafði undirbúið sig eins og hann gat, fóru æðarnar í sundur.

Fullkomin tímasetning

Einhvern veginn gekk þetta hjá Aroni, þó hann missti töluvert af blóði. Hann náði að koma sér niður gljúfrið og hann náði að drösla sér um 10 kílómetra áður en hann rakst á hollenska ferðamenn sem gáfu honum vatn. Það var honum eins til happs að fjölskylda hans hafði komist að því hvert hann fór og eftir að hann skilaði sér ekki til vinnu var hafin leit að honum. Því leið ekki á löngu áður en Aron komst undir læknishendur.

Þessi lífsreynsla fældi Aron þó ekki frá ævintýramennskunni. Þvert á móti telur hann sig í dag vera betri klifrara heldur en þegar hann hafði báða handleggina. Og árið 2010 rættist sýnin sem honum birtist í gljúfrinu. þegar sonur hans, Leo kom í heiminn.

Saga Arons hefur veitt mörgu innblástur, enda þykir hann hafa haldið haus í aðstæðum sem gætu bugað hörðustu menn. Meðal annars varð sagan innblásturinn af kvikmyndinni 127 hours þar sem James Franco fer með hlutverk Arons. Þó myndin sé leikin hefur Aron sjálfur dásamað hana og segir að hún sé eiginlega svo nákvæm að hún gæti talist sem heimildarmynd.

Björgunarsveitir endurheimtu handlegginn, en það var auðvitað ekki hægt að græða hann á aftur. Þess í stað var handleggurinn brenndur og um ári eftir þolraunina sneri Aron aftur að gljúfrinu og dreifði öskunni. Þar með gat Aron viljandi gefið gljúfrinu það sem það hafði áður tekið frá honum óviljugum. Hann hefur síðan gert sér ítrekaðar ferðir í gljúfrið þar sem hann snertir alltaf örlagagrjótið.

„Ég snerti það og þá kemst ég til baka í þessar aðstæður, ég man hvernig ég hugsaði um það sem skiptir máli í lífinu, sambönd, og þetta verkefni – að ætla að komast úr gljúfrinu til að snúa aftur í faðm ástarinnar, til að snúa aftur í frelsið úr prísundinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Jón Daði í Wrexham
Pressan
Fyrir 2 dögum

Rússneskir njósnarar sagðir hafa sent sprengjur flugleiðis til Bretlands og Þýskalands

Rússneskir njósnarar sagðir hafa sent sprengjur flugleiðis til Bretlands og Þýskalands
Pressan
Fyrir 2 dögum

Starfsmaður Walmart lést á voveiflegan hátt

Starfsmaður Walmart lést á voveiflegan hátt
Pressan
Fyrir 3 dögum

Forðuðu sér frá Úkraínu en dóu svo í fellibylnum Helenu

Forðuðu sér frá Úkraínu en dóu svo í fellibylnum Helenu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rússneskur herforingi barinn til dauða – Fyrirskipaði árás á verslunarmiðstöð í Úkraínu

Rússneskur herforingi barinn til dauða – Fyrirskipaði árás á verslunarmiðstöð í Úkraínu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þingmaður öskraði á Karl Bretakonung- „Þetta er ekki landið þitt og þú ert ekki minn konungur“

Þingmaður öskraði á Karl Bretakonung- „Þetta er ekki landið þitt og þú ert ekki minn konungur“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Bíræfin tilraun til tryggingasvika náðist á myndband

Bíræfin tilraun til tryggingasvika náðist á myndband