fbpx
Laugardagur 19.október 2024
Pressan

Úlfur í sauðargæru heillaði alla upp úr skónum í stefnumótaþætti – Síðar kom hrollvekjandi sannleikurinn í ljós

Pressan
Laugardaginn 19. október 2024 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríkjamaðurinn Rodney James Alcala heillaði kvenþjóðina upp úr skónum þegar hann fram í stefnumótaþættinum „The Dating Game“ árið 1978.  En Rodney bjó yfir hryllilegu leyndarmáli. Mál Rodney er tekið fyrir í leiknu myndinni Woman of the Hour sem hefur slegið í gegn á Netflix. 

Því er ekki úr vegi að rifja upp þetta hrottalega mál, því á bak við þennan heillandi draumaprins leyndist rotið skrímsli.

Rodney var 35 ára gamall þegar hann mætti í stefnumótaþáttinn þar sem hann keppti um hylli piparjónkunnar Cheryl Bradshaw. Hann heillaði hana upp úr skónum og sigraði þáttinn. En ekkert varð úr stefnumóti þeirra Bradshaw og Rodney þar sem hún skynjaði eitthvað óþægilegt við nærveru hans. Þessi tilfinningar bjargað líklega lífi hennar, því Rodney var kannski heillandi, en hann var líka raðmorðingi sem hafði fjögur líf á samviskunni.

Andfélagslegur en greindur

Rodney fæddist árið 1943 í San Antonio. Hann gekk í herinn 17 ára gamall en var rekinn þaðan vegna ásakana um kynferðisbrot, og sökum taugaáfalls. Herinn lét gera á honum geðmat og samkvæmt því var Rodney haldinn andfélagslegri persónuleikaröskun og að hann væri á sama tíma afburðagreindur, með greindarvísitöluna 135.

Rodney fór þá í háskólann UCLA þar sem hann lærði listfræði.

Hann komst fyrst í kast við lögin árið 1968, þá 25 ára gamall. Hann hafði lokkað 8 ára stúlku inn í bifreið sína, keyrt með hana heim til sín þar sem hann beitti hana bæði kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Stúlkan lifði raunina af þökk sé góðum samherja sem hafði samband við lögreglu, en hún hlaut svo alvarlega áverka að henni var haldið sofandi á sjúkrahúsi í rúman mánuð, auk þess sem hún varði mánuðum í endurhæfingu.

Rodney flúði þá til New York þar sem hann skráði sig til náms við háskólann NYU og nam þar kvikmyndagerð. Samhliða námi vann hann ýmis störf, þar með talið fyrir Blue Cross Blue Shield samtökin þar sem hann deildi skrifstofu með raðmorðingjanum Richard Cottingham.

Fyrsta morðið

Árið 1971 fannst flugfreyjan Cornelia Crilley látin. Hún var 23 ára og lést eftir hrottalegar barsmíðar og nauðgun á heimili sínu í Manhattan. Rodney hafði banað henni með því að vefja sokkabuxum hennar um háls hennar.

Sama ár lýsti FBI-lögreglan eftir Rodney út af árásinni á ungu stúlkuna. Þá starfaði Rodney undir dulnefni fyrir listabúðir stúlkna. Tvær stúlkur í búðunum þekktu hann af plakati lögreglu og sögðu til hans. Rodney var þá handtekinn og framseldur til Kaliforníu. Foreldrar stúlkunnar bönnuðu henni þó að bera vitni fyrir dómi og lögregla treysti sér ekki til að reka málið án hennar. Þar með fékk Rodney vægan dóm fyrir barnaníð og hlaut aðeins þriggja ára fangelsisdóm.

Hann fékk svo reynslulausn árið 1974 eftir að hafa afplánað 17 mánuði. Aðeins tveimur mánuðum eftir að hann losnaði var hann handtekinn að nýju og sakaður um brot gegn 13 ára stúlku. Fyrir það afplánaði hann tvö ár áður en honum var sleppt aftur til reynslu.

Skilorðsfulltrúi Rodney tók þá óvenjulegu ákvörðun árið 1977 að heimila honum að ferðast til New York, en slíkt var fáheyrt í tilviki manna sem höfðu hlotið dóm vegna ítrekaðra brota, hvað þá menn sem höfðu sögu um að flýja undan lögreglu.

Guðdóttir stórstjarna

Þannig atvikaðist það að Rodney fann sig aftur á Manhattan þar sem hann hafði myrt aftur á innan við viku. Að þessu sinni var það 23 ára kona, Jane Hover, sem var dóttir næturklúbbseigandans Herman Hover og guðdóttir ekki ómerkilegri manna en  leikara- og söngvaranna Dean Martin og Sammy Davis Jr.

Eftir að fjölskylda Jane tilkynnti að hennar væri saknað var Rodney yfirheyrður af lögreglu, enda hafði borist ábending um ofbeldisfulla sögu hans. Hann gekkst við því að þekkja til Jane Hover, en lögregla gat þó ekki handtekið hann þar sem ekki var víst að Jane væri látin, enda fundust líkamsleifar hennar ekki fyrr en þó nokkru síðar.

Síðar sama ár myrti hann hina 18 ára gömlu Jill Terry Barcomb. Hann kom líki hennar fyrir við hina þekktu götu Mulholland Drive og stillti henni upp. Barcombs fannst krjúpandi og ber að neðan. Hún hafði verið kyrkt með bláu reipi, henni hafði verið nauðgað og auk þess fundust bitför á hægra brjósti hennar.

Rétt rúmum mánuði síðar myrti hann 27 ára hjúkrunarfræðinginn Georgia Marie Wixted. Hún fannst látin á heimili sínu í Malibu og svo virtist sem að brotist hefði verið inn til hennar. Henni hafði verið stillt upp nakinni á svefnherbergisgólfinu. Hún hafði verið kyrkt með sokkabuxum. Henni hafði verið nauðgað, hún var höfuðkúpubrotin og kynfæri hennar afskræmd. Á vettvangi fannst erfðaefni og handafar sem síðar átti stóran hlut í að sakfella Rodney.

Ekki ánægður eftir höfnun

Árið 1978 stundaði Rodney það að sannfæra unga menn og konur um að hann væri atvinnuljósmyndari. Hann lokkaði ungmenni til sín og fékk þau til að sitja fyrir á mjög kynferðislegum myndum. Lögregla óttast enn í dag að einhverjar myndirnar sýni fórnarlömb sem enn á eftir að finna.

Rodney fékk svo að taka þátt í stefnumótaþættinum The Dating Game. Þar var hann kynntur til leiks sem farsæll ljósmyndari sem lagði stund á fallhlífarstökk og mótorhjól. Eins og áður segir neitaði piparjónkan í þættinum að fara á stefnumót með Rodney, þó hann hafi unnið. Lögregla telur að þessi höfnun hafi orðið til þess að eftir þáttinn myrti hann minnst þrjár konur til viðbótar.

Sumarið 1978. myrti hann 31 árs ritara frá Santa Monica, Charlotte Lee Lamb. Hún fannst látin í sameiginlegu þvottaherbergi í blokkinni sem hún bjó. Henni hafði verið nauðgað, hún barin og kyrkt með skóreim. Henni hafði verðið stillt upp svo hendur hennar voru fyrir aftan bak. Erfðaefni fannst á vettvangi sem síðar var notað til að tengja morðið við Rodney.

Í febrúar 1979 rakst Rodney á hina 15 ára gömlu Monique Hoyt, sem var puttaferðalangur. Hann fór með Hoyt heim og nauðgaði henni. Síðan fór hann með hana að fjallgarði í Kaliforníu þar sem hann tók af henni kynferðislegar ljósmyndir, batt hana og keflaði og beitti hana frekara kynferðisofbeldi. Síðan barði hann höfði hennar utan í grjót. Líklega hefði hann haldið áfram. Hann færði hana aftur inn í bifreið sína en svo þurfti hann að fara á salernið svo hann stoppaði á bensínstöð, enda taldi hann stúlkuna vera rotaða. En Hoyt var með meðvitund og nýtti tækifærið og flúði. Hún kærði Rodney til lögreglu og var hann handtekinn. Móðir hans kom þó til bjargar og lagði fram tryggingu svo hann fengi að ganga laus þar til kæran yrði til lykta leidd.

Nokkrum mánuðum síðar fór hin 21 árs Jill Marie Parenteau snemma úr vinnunni til að horfa á hafnaboltaleik. Hún skilaði sér þó ekki í vinnuna morguninn eftir og þegar lögregla kom að heimili hennar sáust merki um innbrot. Parenteau fannst látin á baðherbergisgólfinu. Henni hafði eins verið stillt upp með áberandi hætti og henni hafði verið nauðgað, hún barin og loks kyrkt. Rodney hafði þó skorið sig þegar hann braust inn og blóðið var síðar notað til að tengja hann við verkanðinn.

Var næstum sloppinn

Viku síðar hvarf hin 12 ára gamla Robin Christine Samsoe á leið sinni heim úr ballet. Lík hennar fannst 12 dögum síðar. Hún hafði orðið fyrir kynferði- og líkamlegu ofbeldi, en banamein hennar var hnífstunga. Vinir stúlkunnar sögðu lögreglu að ókunnugur maður hefði vikið sér að þeim á ströndinni nokkru fyrr. Gátu börnin lýst þessum ókunnuga manni fyrir teiknara lögreglu og þannig bar skilorðsfulltrúi Rodney kennsl á hann.

Hann var loks handtekinn í júlí árið 1979. Fyrst var hann aðeins ákærður fyrir morðið á Samsoe. Fyrir það var hann í júní 1980 dæmdur til dauða. Dóminum var þó hnekkt á áfrýjunarstigi svo aftur var réttað yfir Rodney árið 1986 og aftur var hann dæmdur til dauða.

Þeim dómi var svo aftur hnekkt árið 2001. Áður en réttað var yfir honum í þriðja sinn uppgötvaði lögregla tengsl hans við hin morðin. Þar með var hann ákærður fyrir fjögur morð til viðbótar. Í febrúar 2010 svaraði Rodney til saka fyrir fimm morð. Ári síðar var hann ákærður fyrir tvo til viðbótar.

Lögregla telur að fórnarlömbin séu enn fleiri, jafnvel allt að 130 talsins, og hefur nafn Rodney komið upp í rannsóknum morða í Los Angeles, Kaliforníu, Seattle, Washington, New York, New Hampshire og Arizona.

Hann lést í fangelsi af náttúrulegum orsökum árið 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Trump yngri heldur utan um „óvinalista“ föður síns fyrir næstu ríkisstjórn

Trump yngri heldur utan um „óvinalista“ föður síns fyrir næstu ríkisstjórn
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ása Guðbjörg með óvænta yfirlýsingu eftir að maður hennar mætti fyrir dóm

Ása Guðbjörg með óvænta yfirlýsingu eftir að maður hennar mætti fyrir dóm
Pressan
Fyrir 2 dögum

Leiðtogi Repúblikana hefur misst „lystina“ á Úkraínu

Leiðtogi Repúblikana hefur misst „lystina“ á Úkraínu
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fann vefsíðu á netinu þar sem fólk kaupir þjónustu leigumorðingja – Setti sig í samband við fólk en í einu tilfelli var það orðið of seint

Fann vefsíðu á netinu þar sem fólk kaupir þjónustu leigumorðingja – Setti sig í samband við fólk en í einu tilfelli var það orðið of seint
Pressan
Fyrir 3 dögum

Segir að Diddy hafi hefnt sín með hrottalegum hætti eftir að hún sagði hann viðriðinn morðið á Tupac

Segir að Diddy hafi hefnt sín með hrottalegum hætti eftir að hún sagði hann viðriðinn morðið á Tupac
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lögreglan fann poka merktan „Alls ekki poki fullur af fíkniefnum“ – Var fullur af fíkniefnum

Lögreglan fann poka merktan „Alls ekki poki fullur af fíkniefnum“ – Var fullur af fíkniefnum