Bresk kona á fertugsaldri beið bana eftir að rúm hennar bilaði og féll á hana með þeim afleiðingum að hún kafnaði.
Konan hét Helen Davey og var 39 ára. Um var að ræða rúm af gerðinni Ottoman en hægt er að lyfta upp efri hluta rúma, þar með talið dýnunni, af þeirri gerð með innbyggðum búnaði sem haldið er uppi með aðstoð gass. Með þessu er hægt að komast að geymslurými í neðri hluta rúmsins.
Niðurstaða dánardómstjóra er að þetta hafi verið dánarorsökin.
Í umfjöllun CNN kemur fram að Davey sem bjó í norðurhluta Englands hafi látist í júní síðastliðnum. Davey lyfti rúminu upp en búnaðurinn hætti að virka með þeim afleiðingum að sá hluti sem var lyft upp, þar með talið dýnan, féll niður með þeim afleiðingum að háls hennar var fastur á milli þess hluta sem lyft hafði verið upp og botns rúmsins. Síðar kom í ljós að búnaðurinn reyndist gallaður.
Dóttir Davey, Elizabeth sem er 19 ára, kom að móður sinni og segir hana hafa legið með bakið á gólfinu og með höfuðið undir rúminu. Hún segir að móðir sín hafi beygt fæturna og hafi augljóslega verið að reyna að standa upp.
Elizabeth reyndi að lyfta efri hluta rúmsins upp en þegar búnaðurinn virkaði ekki reyndist það afar þungt og hún þurfti að halda honum uppi á sama tíma og hún reyndi að ná móður sinni undan. Hún segir að henni hafi loks tekist að halda efri hlutanum uppi með öðrum fætinum á meðan hún náði að losa höfuð móður hennar úr prísundinni.
Elizabeth segir að á þessum tímapunkti hafi móðir hennar verið orðin blá í framan með greinileg för á hálsinum. Hún sá að móðir sín andaði ekki og hóf þegar í stað endurlífgunartilraunir en því miður tókst ekki að bjarga Helen.
Dánardómstjórinn hefur sent stjórnvöldum bréf þar sem hann varar við rúmum af þessari gerð og hvetur til þess að gripið verði til aðgerða til að koma í veg fyrir fleiri slys af þessu tagi.