Samkvæmt samningnum munu Bretar láta Máritíus eftir yfirráð yfir Chagoseyjum, þar á meðal Diego Garcia. Það er þó kveðið á um það í samningnum að herstöðin verði áfram starfrækt næstu 99 árin hið minnsta. Chagoseyjarnar eru rúmlega 2.000 kílómetra frá Máritíus.
Þegar Máritíus fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1968 héldu Bretar Chagoseyjum, eingöngu vegna herstöðvarinnar á Diego Garcia. Þeir gerðu eyjarnar að nýrri nýlendu sinni, British Indian Ocean Territory. Þetta hafa stjórnvöld í Máritíus aldrei sætt sig við og fyrir 5 árum komst Alþjóðadómstóllinn í Haag að þeirri niðurstöðu að þetta væri ólöglegt.
Fáir hafa líklega heyrt um Diego Garcia en þegar tilkynnt var um samninginn vöknuðu margir upp við vondan draum í Washington og Lundúnum.
Herstöðin, þar er stór herflugvöllur, gegndi mikilvægu hlutverki í Persaflóastríðinu, Íraks-stríðunum og í stríðinu í Afganistan. Í núverandi stríðsátökum í Miðausturlöndum gegnir hún mikilvægu hlutverki varðandi viðbragðsgetu bandaríska hersins.
Flugbrautin þar er 3.600 metra löng og þar geta því stærstu sprengjuflugvélar Bandaríkjamanna lent, þar á meðal B-1B og B-52H Stratofortress sem geta borið kjarnorkuvopn. Þessar gríðarstóru flugvélar geta flogið allt að 14.000 kílómetra og með því að hafa aðstöðu á Diego Garcia geta þær sinnt verkefnum í Miðausturlöndum, Afríku, Asíu og Suður-Kínahafi en þar geta flugvélar frá bandarísku herstöðinni á Gvam einnig komið til sögunnar.
Þeir sem gagnrýna samninginn óttast að hann sé hrein gjöf til Kínverja. Ástæðan er að samband Máritíus og Kína er mjög gott og óttast fólk nú að Kínverjar muni þrýsta á um að fá að koma upp herstöð á einhverri af eyjunum eða að minnsta kosti hleranastöð. Þannig gætu þeir komið sér fyrir nærri Diego Garcia.