Live Science segir að steinninn sé í Jezero gígnum og sé ólíkur öllu öðru sem sést hefur á plánetunni. Myndin var tekin þann 13. september.
Vísindamenn hafa nefnt steininn „Freya Castle“ og er áferð hans ólík öllu því sem sést hefur áður. Takmörkuð vitneskja liggur fyrir um efnasamsetningu hans en NASA segir að fyrstu kenningarnar séu að storku og/eða efnabreytingarferli hafi myndað rendurnar.
Steinninn er um 20 cm í þvermál. Hann liggur laus á yfirborðinu en það bendir til að hann hafi myndast annars staðar. Hann gæti hugsanlega hafa rúllað niður úr hlíðinni ofar í gígnum. Vonast NASA til að Perseverance finni aðra svona steina þegar bílinn ekur upp úr gígnum.