Þú hefur hugsanlega tekið eftir því að á heitum sumardegi, finnur þú ekki til eins mikillar svengdar og þegar þú ert í köldu umhvefi. En hvaða tengsl eru á milli hitastigs og matarlystar? Af hverju finnum við síður til svengdar þegar heitt er í veðri?
Þessari spurningu var varpað fram á vef Live Science sem segir að vísindamenn hafi lengi skoðað tengsl hitastigs og matarlystar. Allison Childress, næringarfræðingur og lektor við Texas Tech háskólann, sagði í samtali við Live Science að vitað sé að fólk, sem býr í köldu umhverfi, neyti fleiri hitaeininga.
Hún sagði að líffræðileg ástæða sé fyrir þessu. Hitaeiningar séu orkueiningar og brennsla þeirra losi um hita og hjálpi fólki að halda líkamshitanum í köldu loftslagi. En þegar hlýnar að sumri, taki fólk eftir að það sé síður svangt.
Hún sagði að hins vegar sé ekki vitað hvaða ferli liggi að baki þessu en margir þættir hafi áhrif á hitaeininganeyslu.
Matt Carter, næringarfræðingur við Williams College í Massachusetts, tók í sama streng og sagði að margir þættir, til dæmis hormónar, prótín og umhverfisáhrif hafi áhrif á hvernig og af hverju við finnum til svengdar og af hverju við finnum síður til svengdar á heitum dögum.