Talið er að yfirvöld í Norður-Kóreu hafi sent þó nokkra hermenn til Úkraínu til að aðstoða Rússa í innrásarstríðinu þar í landi.
Samskipti Vladimír Pútín Rússlandsforseta og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafa verið góð upp á síðkastið og hittust þeir til að mynda í Norður-Kóreu fyrr í sumar. Talið er að þar hafi þeir handsalað samkomulag um að Norður-Kóreumenn myndu senda hermenn til að aðstoða Rússa.
Fjölmiðlar í Úkraínu og Suður-Kóreu hafa greint frá dauðsföllum norðurkóresku hermannanna. Sagði Kim Yong-hyun, varnarmálaráðherra Suður-Kóreu, að flest benti til þess að upplýsingarnar væru réttar en Suður-Kóreumenn eru sagðir fylgjast grannt með því hvort Norður-Kóreumenn séu að senda hermenn til Úkraínu.
Bæði Úkraínumenn og Rússar hafa erlenda ríkisborgara í sínum herum. Þannig hafa nokkrir breskir ríkisborgarar sem barist hafa fyrir Úkraínu verið drepnir á vígvellinum og þá er vitað til þess að í rússneska hernum séu ríkisborgarar frá ríkjum Afríku.