fbpx
Miðvikudagur 09.október 2024
Pressan

Biðja fólkið sem neitar að rýma um að merkja útlimi sína til að auðvelda yfirvöldum að bera kennsl á líkin

Pressan
Miðvikudaginn 9. október 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Milljónum hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín í Flórída áður en fellibylurinn Milton nær landi á vesturströndinni í kvöld. Milton er flokkaður sem fimmta stigs fellibylur og er talið að hann verði sá öflugasti sem gengur yfir svæði í um öld. Lögregla og yfirvöld hafa verið ómyrk í málinu undanfarinn sólarhring og vara þá, sem ætla sér ekki að hlýða fyrirmælum um rýmingu, við því sem í vændum er.

Ríkisstjórinn Ron DeSantis sagði íbúum að „skrímsli“ sé á leiðinni. Fjöldi fólks hefur ákveðið að hlýða ekki tilmælum um rýmingu og meðal annars greint frá ákvörðun sinni á samfélagsmiðlum. Borgarstjóri Tampa, Jane Castor, sagði hreint út að þetta fólk eigi á hættu að deyja: „Ef þú velur að dvelja á einhverjum af þessum rýmingarsvæðum þá muntu deyja,“ sagði hún í samtali við CNN.

Dómsmálaráðherra Flórída, Ashley Moddy, bað þessa einstaklinga, fyrst þeir ætla að stofna lífi sínu í hættu, að skrifa nöfn sín með varanlegu bleki á líkama sína svo lögregla eigi auðveldara með að bera kennsl á lík þeirra. „Þið þurfið líklega að skrifa nöfn ykkar með varanlegu bleki á hendurnar svo fólk viti hver þú ert þegar þau sækja síðar,“ hún bætti svo við að yfirvöld séu enn að finna lík einstaklinga sem töldu ekkert tilefni til að flýja fellibylinn Helene í síðustu viku.

Lögreglustjórinn William Tokajer í Holmes Beach bað íbúa sem ekki ætla að flýja Milton að skrifa nöfn sín á fætur sína. Staðan sé sú að lögregla og viðbragðsaðilar vinni nú hörðum höndum að  því að koma íbúum burt og á sama tíma að reyna að tryggja að hætta stafi ekki af braki frá síðasta fellibyl, Helene. Hann vonar að þeir sem ákváðu að rýma ekki fyrir Helene hafi nú séð að sér því þegar stormurinn skellur á þá koma viðbragðsaðilar sér í skjól og enga björg þá að fá. Hann sagði við CNN:

„Ef þú hefur ekki rýmt – ef þú hlýðir ekki fyrirmælum, þá ertu ein. Þú getur allt eins náð þér í túss og skrifað nafnið þitt og kennitöluna á fótlegginn þinn svo að þegar við finnum þig þá getum við haft samband við fjölskyldu þína. Því þetta mun ekki enda vel fyrir þig.“

Slökkviliðsstjórinn á Treasure Island, Trip Barrs, segir fólki að pakka niður eigum sínum og koma sér burt. „Ef þú gerir það ekki, þá muntu deyja. Punktur. Þú getur verið viss um það, það er ekki í myndinni að bíða storminn af sér.“

Barrs tekur fram að jafnvel þeir sem búa ekki á jarðhæðum séu í hættu. Stormurinn muni rífa upp mikið af braki sem geti flogið upp í mikla hæð. Þetta brak getu svo lent á fólki og byggingum eins og eldflaugar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt