Þjóðgarðsyfirvöld skýrðu frá þessu og sögðu að pönnukökunum hafi líklega verið hent út úr bíl og hafi björninn fundið þær og lagt sér til munns.
Sky News segir að þetta hafi gerst nærri bænum Townsend. Samtökin Appalachian Bear Rescue, sem eru staðsett við Great Smoky Mountains þjóðgarðinn, sögðu að um karldýr hafi verið að ræða og það sem hafi dregið það að fjölförnum veginum hafi verið matur frá fólki. Við hlið dýrsins lá diskur með pönnukökum.
„Þegar haustar eru birnir á fullu að undirbúa sig undir að leggjast í híði. Bjarndýrið taldi líklega þessar pönnukökur vera auðvelda og hitaeiningaríka máltíð. Því miður, var þessi máltíð síðasta máltíð þess,“ sögðu samtökin í tilkynningu.
Um 1.900 birnir eru í þjóðgarðinum. Gestir hans eru beðnir um að gefa björnum ekki mat eða skilja mat eftir því það geti haft áhrif á hegðun bjarnanna og stofnað öryggi þeirra og fólks í hættu.
Allt að 5.000 dollara sekt og sex mánaða fangelsi liggur við því að kasta rusli í þjóðgarðinum, gefa bjarndýrum mat eða geyma matvæli á ófullnægjandi hátt.