Rannsóknin sýnir að kynþroskaskeið unglinga á ísöld hófst á svipuðum tíma og það gerir hjá unglingum nútímans.´
Live Science segir að vísindamenn hafi rannsakað beinagrindur unglinga, sem létust í Evrópu fyrir 10.000 til 30.000 árum. Í ljós kom að líkamlegur þroski sumra þeirra var ekki eins og reikna mátti með og telja vísindamennirnir að það sé vegna þess hversu erfið lífsskilyrði unglingarnir hafi búið við.
Beinagrindurnar fundust á sjö stöðum á Ítalíu, Rússlandi og Tékklandi að því er segir í rannsókninni sem var birt í vísindaritinu Journal of Human Evolution nýlega.
Vísindamennirnir gátu ákvarðað kynþroskastig í 11 af beinagrindunum. Þeir komust að því að ungmennin höfðu tekið mikla vaxtarkippi á aldrinum 13 til 16 ára. Ungmennin náðu fullum þroska á aldrinum 16 til 21 árs. Þetta bendir til að unglingsárin hafi verið fleiri á ísöld en hjá vestrænum unglingum í dag en þeir ná oft fullum þroska á aldrinum 16 til 18 ára.