Það er engin þörf á að búa til einhverja töfrapillu því það er hægt að sækja mikla hollustu í ríki náttúrunnar og er hunang gott dæmi um það.
Vitað er að hunang hefur margvísleg góð áhrif á líkamann en það eru ekki allir sem vita hver þessi áhrif eru.
Hér nefnum við nokkur dæmi um góð áhrif hunangs til sögunnar.
Hunang er gott fyrir húðina. Það inniheldur andoxunarefni, vítamín og prótín sem geta hreinsað óæskileg efni úr líkamanum og um leið húðina.
Ef þú burðast með nokkur aukakíló þá hefur þú eflaust fengið þau ráð að draga úr sykurneyslu. Hunang er gott sætuefni og vel hægt að nota það í staðinn fyrir sykur. Það heldur blóðsykrinum í jafnvægi og getur hjálpað þér að léttast því það inniheldur B6 vítamín, járn, kalsíum, natríum, sink, kalíum og fosfór, steinefni og vítamín sem eru þekkt fyrir að hraða efnaskiptum.
Það er ekkert kólesteról í hunangi. Þvert á móti geta steinefnin og vítamínin í því hjálpað til við að minnka magn „slæms“ kólesteróls að því er BBC segir og vísar í rannsókn vísindamanna við University of Illinois.
Rannsóknir hafa sýnt að andoxunarefnin, sem eru í hunangi, geta komið í veg fyrir æðakölkun og þar með unnið gegn hjartasjúkdómum.
Heilinn elskar hunang því það bætir minnið. Það hjálpar líkamanum einnig við að vinna úr kalsíum sem aftur hefur góð áhrif á heilann.
Ef þú átt erfitt með svefn þá getur hunang hjálpað þér. Eins og sykur þá eykur hunang magn insúlíns í líkamanum sem aftur leysir serótónín úr læðingi en það er efni sem bætir skapið og orsakar vellíðunartilfinningu. Líkaminn breytir serótóníni í melatónín sem bætir svefngæðin og kemur reglu á lengd hans að sögn Rene Ficek, sérfræðings við Seattle Sutton Healthy Eatin.