fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Pressan

Lögreglan opnaði dyrnar og hryllingurinn kom í ljós

Pressan
Laugardaginn 5. október 2024 21:00

Lélegt húsnæði kemur oft við sögu í tengslum við mansal. Mynd:FBI

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Halló, tík.“ Cynthia Vigil Jaramillo, 22 ára, sat nakin, ráðvillt og vissi ekki hver ávarpaði hana. Það var bundið fyrir augu hennar og hún bundin föst við eitthvað sem líktist helst stól kvensjúkdómalæknis. Henni var kalt. Fyrir aftan sig heyrði hún rólega karlmannsrödd segja henni að búið væri að ræna henni og að hún væri í miðri verstu martröð lífsins: „Fólk leitar örugglega að þér en enginn mun finna þig hér. Þetta falda leikherbergi, þar sem þú átt að vera, er nefnilega með veggi, þak og gólf úr stáli. Það er hljóðeinangrað og með stálhurð með tveimur lásum.“

Röddin tilheyrði bifvélavirkjanum David Parker Ray, 58 ára, sem var þekktur fyrir að vera prúður og skyldurækinn maður. Í vinnunni lagfærði hann bíla en heima við pyntaði hann og nauðgaði konum sem hann hafði rænt. Aðeins hans allra nánustu vissu um þetta og að hann hafði stundað þetta áratugum saman og að hann hafði aldrei séð eftir neinu sem hann gerði.

Hann hafði tekið upp á hljóðsnældu fyrirmæli til nýrra fórnarlamba þar sem hann lýsti því í smáatriðum sem hann ætlaði að gera við þau. „Þér mun ekki líka við það í eina sekúndu sem við gerum við þig,“ sagði hann meðal annars á upptökunni.

Nokkrum klukkustundum áður en Cynthia rankaði við sér hafði David stöðvað hana á bifreiðastæði í Albuquerque í Nýju-Mexíkó. Hún var heróínsjúklingur og vændiskona. Hann gaf sig út fyrir að vera viðskiptavinur sem vildi kaupa munngælur af henni fyrir 30 dollara. Hann setti handjárn á hana og setti inn í aftursæti bifreiðar sinnar og sagðist vera lögreglumaður.

„Þú munt ekki muna neitt“

David ók síðan beina leið heim til sín en hann bjó rétt fyrir utan litla bæinn Elephant Butte en þar bjuggu um 700 manns og meðalaldurinn var 63 ár. Þetta var 1999.

Húsið var umkringt runnum svo það var í góðu skjóli. Þegar þangað var komið dópaði hann Cynthia og setti fóthlekki og hálsól á hana. Síðan klippti hann kjólinn af henni. „Áður en við höfum lokið við að heilaþvo þig munt þú ekki muna neitt eftir þessu litla ævintýri okkar,“ sagði hann á fyrrgreindri hljóðupptöku.

Hann bjó með unnustu sinni Cinthya Hendy, kölluð Cindy, 39 ára, og annarri dóttur sinni, Glenda „Jesse“ Ray, 32 ára. Í stofunni var járnstöng sem fórnarlömb hans voru oft hlekkjuð við. Í einu horninu var rúm og vinstra megin við það var stór fata sem fórnarlömbin urðu að gera þarfir sínar í.

„Núna er þú þrællinn okkar. Í hvert sinn sem við spyrjum þig spurningar sem krefst já eða nei svars verður þú að svara „já meistari“, „nei meistari“ og svo framvegis. Þú verður að sýna virðingu,“ sagði hann í hljóðupptökunni.

Þriggja daga helvíti

Í þrjá daga var Cynthia nauðgað og hún pyntuð margoft á dag. Lögreglan telur að 40 aðrar konur hafi sætt sömu örlögum. Hún varð alltaf að vera nakin, jafnvel þegar David var í vinnunni. Hálsólina og fóthlekkina varð hún einnig að vera með allan tímann. Hún mátti ekki segja eitt einasta orð nema hún væri beðin um það. Stundum var henni nauðgað í stofunni og einnig var hún pyntuð þar. Í öðrum tilvikum var hún dregin út í sjö metra langan vagn sem stóð í garðinum.

Pyntingaklefi í garðinum

David kallaði vagninn sinn “The Toy Box” (leikfangakassann) en af því var viðurnefnið, sem hann hlaut síðar dregið, en það var „The Toy-Box Killer“. Í miðjum vagninum var kvensjúkdómalæknastóllinn með leðurólum á. Allt í kring voru alls konar pyntingartæki sem David hafði sjálfur búið til. Á veggnum hékk skilti sem á stóð „Satan‘s Den“ (Hola djöfulsins).

Svona var umhorfs í pyntingavagninum. Mynd:FBI

Þremur dögum eftir að henni var rænt var Cynthia enn hlekkjuð við stólpann í hjólhýsinu. Hún hafði nánast ekki fengið neitt að borða eða drekka og var örmagna og ringluð. David var nýfarinn í vinnuna og unnusta hans, Cindy, var upptekin við eitt og annað á heimilinu. Cynthia lá í skítugu rúminu í stofunni og sá þá að Cindy hafði gleymt lyklunum að handjárnunum á sófaborðinu. Hún notaði síðustu krafta sína til að rísa upp úr rúminu og læðast hljóðlaust að borðinu. Um leið og Cindy fór fram til að svara í símann kastaði hún sér á lyklana, opnaði handjárnin og hringdi í 911 úr heimasímanum en það er bandaríska neyðarlínan. Hún náði hins vegar ekki að segja neitt áður en Cindy kom hlaupandi inn með glerlampa í höndinni. Hún lamdi honum í höfuð Cynthia til að stöðva hana en Cynthia bjó enn yfir smá kröftum og með þeim hjó hún ísöxi í háls hennar. Cindy féll blæðandi niður á gólfið og Cynthia flýtti sér eins hratt út og hún gat.

„Hringdu í lögregluna, hringdu í lögregluna“

Nakin og enn með hlekkina á sér hljóp hún öskrandi út úr hjólhýsinu, klifraði yfir girðingu, hljóp niður malarveg og inn í fyrsta húsbílinn sem hún kom að. „Hringdu í lögregluna, hringdu í lögregluna,“ öskraði hún á forviða konu sem sat í hægindastól. Cynthia sagði að sér hafi verið naugðað og hún pyntuð í þrjá daga, síðan leið yfir hana.

Konan hringdi í neyðarlínuna. „Það er kona með hálsól á sér hjá mér,“ sagði hún.

Cynthia Hendy. Mynd:FBI

Lögreglan kom fljótlega á vettvang. Konan hafði sveipað náttslopp um Cynthia. Á meðan hún var sett á börur og í sjúkrabíl sagði hún lögreglunni í hverju hún hafði lent og hvernig henni tókst að flýja. Þar sem lögreglunni hafði borist hringing frá heimili David vissi hún fljótlega hvert átti að fara.

Ekki í fyrsta sinn

David og Cindy voru handtekin þar sem þau voru akandi í nágrannabænum Truth or Consequences. Þá blæddi enn úr hálsi Cindy.

Þegar Cynthia var yfirheyrð sagðist hún viss um að hún væri ekki fyrsta fórnarlamb David. „Þegar ég hugsa út í hvernig hann talaði fannst mér eins og þetta væri ekki í fyrsta sinn sem hann gerði þetta. Það var eins og hann vissi hvað hann var að gera. Hann sagði að ég myndi aldrei hitta fjölskyldu mína aftur. Hann sagðist ætla að drepa mig eins og hann hefði gert við hinar,“ sagði hún á fréttamannafundi sem alríkislögreglan FBI hélt síðar.

Úr hryllingsvagninum. Mynd:FBI

David og Cindy neituðu að hafa rænt, pyntað eða nauðgað nokkurri manneskju. David játaði þó að hafa haft ánægju af því að pynta fólk síðan hann var 13 ára. „En allar konur sem ég hef stundað kynlíf með hafa tekið þátt í því af fúsum og frjálsum vilja,“ staðhæfði hann.

Rannsókn málsins

David sagði að hann og Cindy hafi bara viljað aðstoða Cynthia í baráttu hennar gegn heróínfíkninni og að hún hafi sjálf viljað koma heim með þeim. Lögreglan lagði ekki trú á þetta og svo virtist sem David áttaði sig þá á að hann væri í vanda. „Ég held að ég þurfi að fá lögmann. Ég held . . . að . . . ég sé í vanda,“ sagði hann í yfirheyrslu.

Við síðari yfirheyrslur skýrði hann frá því að hann hefði verið kvæntur fjórum sinnum og hefði skilið jafn oft. Þegar lögreglan kynnti honum grun sinn um að hann hefði áður drepið, nauðgað og pyntað konur neitaði hann því en játaði að hafa „öðruvísi“ viðhorf til kynlífs. „Það er erfitt að fá fullnægingu án þess að hugsa um dráp,“ sagði hann.

Mörg hundruð alríkislögreglumenn voru sendir til Elephant Butte til að vinna að rannsókn málsins. þeir fínkembdu svæðið í þeirri von að þeir myndu finna fleiri fórnarlömb David. Þegar þeim tókst loksins að opna vagninn í garði David fór lögreglumaðurinn John Briscoe fyrstur inn. „Holy shit,“ var það fyrsta sem hann sagði þegar inn var komið en þar sá hann kvensjúkdómalæknastólinn og veggspjöld sem sýndu í smáatriðum hvaða aðferðum var hægt að beita við pyntingar. Auk þess voru pyntingartól, túrtappar, eldavél, límband og plasthanskar í skúrnum. Fleiri lögreglumenn komu inn og einum þeirra varð svo um að hann ældi. Í vagninum fann lögreglan margar dagbækur þar sem David  lýsti í smáatriðum hvernig hann hafði drepið um 50 konur.

David Parker Ray. Mynd:FBI

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einnig fundust upptökur þar sem konur sjást pyntaðar og nauðgað en ekki var hægt að sjá andlit þeirra á þeim. Á einni upptökunni, frá 1996, sást húðflúr á fótlegg einnar konunnar. FBI birti mynd af húðflúrinu í þeirri von að konan gæfi sig fram. Kelli Garrett gaf sig þá fram en hún hafði lengi velt fyrir sér af hverju hún var með martraðir um kvensjúkdómalæknastóla, svipur og límband. Ári áður hafði hún verið skilin nakin eftir við þjóðveg nærri Elephant Butte en hún mundi ekkert eftir síðustu þremur dögum annað en að hún hafði farið út að skemmta sér með dóttur David.

David hélt skrá yfir ofbeldisverk sín. Mynd:FBI

Þar með beindust spjótin einnig að dóttur David og einnig fékk lögreglan ábendingu um að unnusti hennar, Dennis Roy Yancy, hafi tekið þátt í ofbeldisverkunum. Þegar Dennis var tekinn til yfirheyrslu brotnaði hann saman og viðurkenndi að hafa drepið konu að nafni Marie Parker 1997 eftir að David hafði nauðgað henni og pyntað dögum saman. Sagði Dennis að David hafi fengið hann til að kyrkja hana og grafa lík hennar í eyðimörkinni. Líkið fannst ekki þrátt fyrir mikla leit FBI.

Í vagni David fann lögreglan tugi skartgripa, hringi, úr og fatnað sem talið var að væri komið frá fórnarlömbum David. Myndir voru birtar af þessum munum í þeirri von að fólk myndi bera kennsl á þá en viðbrögðin voru lítil.

Játning og dómur

David var ákærður fyrir mannrán, nauðganir og pyntingar á þremur konum sem lögreglan hafði komist í samband við. En alríkislögreglan var sannfærð um að David hefði myrt tugi kvenna en fann engar sannanir fyrir því og hann þvertók fyrir það.

Í yfirheyrslu játaði Cindy að David hefði myrt 14 konur og losað sig við lík þeirra í eyðimörkinni. Þetta játaði hún eftir að hafa gert samkomulag við saksóknara um að fangelsisrefsing hennar yrði milduð í 12 ár úr 198 árum.

David var dæmdur í 224 ára fangelsi 2001 og fluttur beint í Lea County Correctional Facility í Hobbs. Tæplega ári síðar fékk hann hjartaáfall og lést.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Færri fengu hæli í Svíþjóð á síðasta ári en nokkru sinni síðustu 40 árin

Færri fengu hæli í Svíþjóð á síðasta ári en nokkru sinni síðustu 40 árin
Pressan
Í gær

Leita að foreldrum Elsu og tveggja systkina hennar – Heita 3,5 milljónum fyrir upplýsingar um þá

Leita að foreldrum Elsu og tveggja systkina hennar – Heita 3,5 milljónum fyrir upplýsingar um þá
Pressan
Fyrir 2 dögum

Umhugsunarefni fyrir þá sem ætla að fá sér gæludýr

Umhugsunarefni fyrir þá sem ætla að fá sér gæludýr
Pressan
Fyrir 2 dögum

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags
Pressan
Fyrir 3 dögum

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þetta eru bestu löndin til að verða gamall í

Þetta eru bestu löndin til að verða gamall í