Donald Trump hefur lýst sig andsnúinn þungunarrofi og ekki löngu eftir að hann var kjörinn forseti á sínum tíma skrifaði hann undir tilskipun sem hefti fjárframlög til fóstureyðinga. Átti þetta til dæmis við um samtök sem framkvæma fóstureyðingar, Planned Parenthood þar á meðal.
Ævisaga Melaniu Trump er væntanleg í verslanir í næstu viku og hefur breska blaðið Guardian fengið eintak af bókinni þar sem Melania tjáir sig meðal annars um rétt kvenna til þungunarrofs, eða fóstureyðinga.
Segir hún í bókinni að hún styðji rétt kvenna til að velja hvenær rétti tíminn er að ganga undir fóstureyðingu. Alveg frá því hún komst á fullorðinsár hafi hún verið þessarar skoðunar.
„Af hverju ætti einhver en konan sjálf að hafa völdin til að ákveða hvað hún gerir við sinn líkama,“ spyr Melania í bókinni og bætir við að það sé grundvallarréttur hverrar manneskju að hafa yfirráð yfir sínum eigin líkama. Þess vegna eigi konur að eiga fullan rétt á því að gangast undir þungunarrof þegar þeim sýnist.