CNN segir að pöndurnar, sem heita Jin Bao Bao og Hua Bao, hafi komið til Finnlands í janúar 2018, nokkrum mánuðum eftir að Xi Jinping, forseti Kína, var þar í opinberri heimsókn.
Samið var um að pöndurnar skyldu vera í Finnlandi í 15 ár. En árin verða aðeins sjö því fljótlega verða pöndurnar settar í einangrun í einn mánuð og síðan verða þær fluttar til Kína.
Þær hafa dvalið í Ahtari dýragarðinum í suðurhluta landsins frá 2018. Dýragarðurinn er í einkaeign og segir Risto Suvionen, forstjóri, að fram að þessu hafi útgjöldin vegna pandanna verið um 8 milljónir evra, það svarar til um 1,2 milljarða íslenskra króna.
Þegar dýragarðurinn fékk pöndurnar var vonast til að þær myndu laða fleiri gesti í garðinn. Suvionen sagði á síðasta ári að þess í stað hafi dýragarðurinn safnað skuldum því vegna sóttvarnaaðgerða á tíma heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafi gestafjöldinn verið var mjög takmarkaður.
Þá hefur hærri verðbólga haft áhrif á reksturinn og kostnaðurinn við pöndurnar hefur einnig aukist. Dýragarðurinn sótti um stuðning frá ríkinu á síðasta ári en þeirri beiðni var hafnað.
Samningaviðræður við Kínverja um að senda pöndurnar heim tóku þrjú ár að sögn Suvionen og nú sé staðan sú að Kínverjar segi að hægt sé að senda þær heim.