Kona í Bretlandi, Violet að nafni, var í óðaönn að taka skreytingar af jólatrénu sínu áður en kæmi að því að taka sjálft tréð niður en þá sá hún nokkuð sem fyllti hana ótta og skelfingu.
Mirror greinir frá málinu og þar kemur fram að Violet var með lifandi tré en hún eins og margt fólk vildi ahaf lifandi tré fremur en gervi tré til að auka jólastemmninguna meira. Líklega mun hún hins vegar hafa gervitré á næstu jólum eftir þá uppgötvun sem hún gerði þegar hún var að taka jólaskreytingarnar af lifandi trénu.
Henni var litið á aðra hönd og sá að það var könguló að skríða á henni. Hún leit þá á tréð og sá þá að þar voru köngulær út um allt.
Violet varð dauðhrædd enda er hún haldin köngulóarfælni (e. arachnophobia) á háu stigi. Hún sagði frá upplifun sinni í myndbandi á Tiktok og á því má sjá hana gráta og henni var greinilega mikið brugðið. Í myndbandinu sagði hún meðal annars:
„Þetta er martröð. Jólatréð er þakið köngulóm. Ég veit ekki hvað ég á að gera.“
Hún beindi því næst símanum að trénu til að áhorfendur gætu séð það en sagðist ekki þora að fara of nálægt því henni findist eins og köngulærnar væru að skríða yfir hana alla.
Hún segist ekki hafa ætlað að birta myndbandið en ákveðið að gera það í ljósi þess að þrátt fyrir hræðsluna þá væri myndbandið samt fyndið. Hún lagði samt áherslu á það í öðru myndbandi að köngulóarfælni hennar væri ekkert grín og að hún hefði orðið virkilega hrædd. Violet býr með kærastanum sínum og þegar hann kom heim sá hann um að farga trénu.
Mirror varar fólk við því að ef það verði vart við klumpa á stærð við valhnetur á greinum jólatrjáa sé ráðlegt að farga trénu þar sem líklega sé um að ræða egg sem inninhaldi 100-2oo köngulær.
Segir í fréttinni að jólatré Violet hafi komið frá Noregi eins og svo mörg önnur lifandi jólatré í Bretlandi en eitthvað er um lifandi norsk jólatré á Íslandi.
Segir enn fremur að heit stofa sé kjörið umhverfi fyrir eggin að klekjast út.
Sérfræðingar segja þó að köngulóareggin séu sjaldgjæf í norskum jólatrjám á Bretlandi en tilfelli Violet sé þó ekki hið eina sem upp hafi komið í landinu en einnig hafi fundist lýs, maurar og mölflugur.