Eins og þau sem fylgjast með fréttum vita eru víðsjárverðir tímar í heiminum. Stríð geisar í Úkraínu og í Mið-Austurlöndum. Stjórnmálamenn, herforingjar, sérfræðingar og fleiri óttast að átökin geti breiðst út. Stöðug valdabarátta á sér stað milli helstu stórvelda og talað er um að stefni í uppgjör milli ólíkra fylkinga í Bandaríkjunum. Margir óttast að heimurinn sé á barmi þriðju heimsstyrjaldarinnar. Ef sú verður raunin velta eflaust einhverjir fyrir sér í hvaða löndum heims yrði þá öruggast að vera.
Daily Mail hefur einmitt tekið saman lista yfir þessi lönd en einu þeirra, að minnsta kosti, ættu flestir lesendur að vera kunnugir.
Suðurskautslandið er ekki ríki en sérstök heimsálfa. Landslagið er fagurt en ísi vaxið. Það er syðsti landmassi veraldar. Fáir hafa í gegnum tíðina sótt það heim en vegna fjarlægðarinnar frá byggðum bólum og fámennisins ætti fólk að vera nokkuð öruggt þar ef allt fer á versta veg.
Argentína hefur á síðustu áratugum ekki sloppið við stríðsátök, samanber Falklandseyjastríðið við Bretland 1982. Landið er þó einn besti staðurinn á jörðinni til að lifa af hungursneyð í kjölfar kjarnorkustríðs.
Samkvæmt rannsóknum vísindamanna myndu 100 kjarnorkusprengjur, ef þær væru sprengdar, gefa frá sér svo mikinn reyk að hann gæti hulið sólina sem myndi valda hungursneyð og uppskerubresti á heimsvísu.
Í Argentínu er mikið til af harðgerðum nytjaplöntum eins og t.d. hveiti og þess vegna yrði landið góður valkostur ef svona staða kemur upp.
Þegar Bútan fékk aðild að Sameinuðu þjóðunum árið 1971 lýsti ríkið yfir ævarandi hlutleysi og er sú yfirlýsing enn í fullu gildi.
Bútan er þar af leiðandi ofarlega á listum yfir friðsælustu ríki heims.
Landið er einnig landlukt og mjög fjallent þar sem það er jú í Himalajafjallgarðinum í Asíu. Þess vegna ætti Bútan að vera sérstaklega öruggt ef þriðja heimsstyrjöldin skellur á.
Þetta land er með lengstu strandlengju í heimi en hún er 6.435 kílómetra löng. Chile býr eins og nágrannaríkið Argentína yfir fjölbreyttu úrvali nytjaplantna og miklum náttúruauðlindum.
Chile er sagt þróaðasta ríki Suður-Ameríku og því ætti aðgangur að góðum innviðum og nútíma tækni að vera til staðar og einangrunin því ekki of mikil ef allt fer á versta veg.
Reyndar má velta fyrir sér hvort hér sé ekki litið framhjá því að stríðsátök fara oftast illa með innviði.
Út frá fjarlægðinni frá öðrum löndum einni saman ætti Fiji að vera góður kostur ef þriðja heimsstyrjöldin verður að veruleika. Fiji er staðsett í Kyrrahafinu og næsta ríki, sem er Ástralía, er í rúmlega 4.300 kílómetra fjarlægð.
Landið er lítil ógn við önnur lönd þar sem her þess samanstendur af aðeins 6.000 hermönnum og er því ofarlega á listum yfir friðsælustu ríki heims. Fiji er vaxið þéttum skógum, þar er mikið af steinefnum í jörðu og nóg af fiski. Þess vegna ætti að vera gott að dvelja þar ef svartsýnustu spár um ástand heimsmálanna rætast.
Stærsta eyja heims sem er í talsverðri fjarlægð frá helstu meginlöndum heimsins. Einangrun þess er nokkur, það er dreifbýlt, fjallent og fámennt og ætti því að vera gott skjól þar.
Daily Mail fullyrðir þó ranglega að Grænland sé hlutlaust. Það er ekki alls kostar rétt. Grænland er ekki sjálfstætt ríki, þó það njóti þó nokkurrar sjálfstjórnar, og heyrir undir Danmörku sem á aðild að Atlantshafsbandalaginu en Grænlendingar hafa þó talsvert að segja um sín utanríkismál.
Daily Mail telur í ljósi fámennisins ólíklegt að Grænland yrði skotmark risavelda heimsins ef til heimsstyrjaldar kemur en velta má fyrir sér hvort gnægð náttúruauðlinda myndi ekki gera landið að skotmarki þrátt fyrir það.
Ísland hefur verið efst á lista yfir friðsælustu ríki heims undanfarin ár og ber með sér þann orðstír á heimsvísu að vera friðsælt land. Sem aðili að Atlantshafsbandalaginu yrði Ísland þó vart hlutlaust ef til heimsstyrjaldar kæmi.
Eins og Íslendingar þekkja vel er Ísland í talsverðri fjarlægð frá flestum öðrum löndum. Það á nóg af náttúruauðlindum. Mikið af fersku vatni, gnægð af fiski og endurnýtanlegar orkuauðlindir. Að því leyti ætti Ísland að vera góður staður til að dvelja á í heimsstyrjöld.
Eins og fleiri lönd á listanum er Indónesía hlutlaus í alþjóðamálum. Þegar landið hlaut sjálfstæði 1948 lýsti forseti landsins utanríkisstefnunni sem frjálsri og virkri. Indónesía er sögð síðan hafa fylgt sjálfstæðri stefnu í alþjóðamálum.
Nýja Sjáland er í öðru sæti á listum yfir friðsælustu ríki heimsins, næst á eftir Íslandi, og hefur oft hlotið lof fyrir friðsæla utanríkisstefnu sína. Fjalllendi landsins ætti að veita Nýsjálendingum gott skjól yrði ráðist á eyríkið.
Syðsta ríki Afríku er mikil matarkista og þar er mikið af frjósömu landi og fersku vatni. Nútímalegir innviðir landsins ættu líka að hjálpa fólki að lifa þar skelli þriðja heimsstyrjöldin á.
Það má þó eins og áður velta fyrir sér hversu vel innviðirnir myndu þola stríðsátök.
Ef fólk er beðið að nefna fyrsta pólitískt hlutlausa ríkið sem því dettur í hug er það Sviss sem er ansi oft nefnt.
Landið er þekkt á heimsvísu fyrir hlutleysi sitt í alþjóðamálum en það hefur haldið fast í hlutleysið síðustu 200 árin. Sviss er auk þess landlukt, fjallent og búið fjölda skýla sem verja eiga fólk fyrir áhrifum kjarnorkuvopna.
Eyríki í Kyrrahafi nokkurn veginn miðja vegu milli Hawaii og Ástralíu. Þar búa aðeins 11.000 manns og innviðir eru ekki eins þróaðir og í hinum vestræna heimi. Túvalú er heldur ekki auðugt af náttúruauðlindum.
Þar af leiðandi væri landið líklega ólíklegt skotmark ef þriðja heimsstyrjöldin brestur á.
Fleiri eru löndin ekki á þessum lista Daily Mail. Lesendur geta síðan velt því fyrir sér hversu raunsær hann er.