Outer Banks er svæði undan austurströnd Bandaríkjanna sem samanstendur meðal annars af eyjum og sandrifjum.
Síðan á föstudag hafa þrjú hús hrunið í Atlantshafið en það þriðja eyðilagðist síðdegis í gær þegar undirstöður hússins gáfu sig. Síðan í febrúar hafa tíu hús á þessu svæði, G.A. Kohler Couyrt í Rodanthe, hrunið í sjóinn.
Veður á þessum slóðum hefur verið slæmt að undanförnu en þó er talið að loftslagsbreytingar á síðustu árum beri mesta ábyrgð á því hvernig fór. Sjór sé farinn að leita lengra upp á land en áður.
Bent er á það í umfjöllun New York Post að eitt þeirra húsa sem hrundi um helgina hafi eitt sinn verið í um hundrað metra fjarlægð frá sjónum. Á síðustu árum hafi sjórinn nálgast með hverju árinu sem líður og að undanförnu hafi þau verið umkringd sjó.
„Það var heill fótboltavöllur af strönd á bak við þessi hús þegar þau voru byggð,“ segir eigandi eins hússins í samtali við Post. „Fólk hefur spurt hvernig okkur datt í hug að byggja á þessum stað, en staðreyndin er sú að þetta var ekki svona,“ bætir eigandinn við.