Slíkur atburður átti sér einmitt stað nýlega í Alabama í Bandaríkjunum. Þá ákvað ekkja manns, sem lést fyrir 20 árum, skyndilega að opna hlöðuna hans.
Í henni reyndist vera ótrúlegt safn bíla frá áttunda, níunda og tíunda áratugnum. Enginn hafði séð þá í öll þessi ár og höfðu þeir varla verið hreyfðir síðan þeim var ekið út af færiböndum framleiðendanna.
Konan fékk bílaáhugamanninn og útvarpsmanninn John Clay Wolfe til að skoða safnið og er óhætt að segja að honum hafi litist vel á það. „Þetta er það ótrúlegasta sem ég hef séð og ég hef unnið við þetta í 31 ár,“ segir hann í myndbandi sem hann birti á YouTube.
Meðal bílanna eru nánast ókeyrður Porsche 911 Carrera 4 frá 1996. Buick Grand National frá 1986 og Corvette Stingray frá 1971.
Þrátt fyrir að bílarnir hafi staðið óhreyfðir lengi, allt að 40 árum, þá eru þeir í ótrúlega góðu standi en það þarf víst að þurrka þykkt ryklag af þeim.
Bílarnir verða fljótlega seldir á uppboði og er reiknað með miklum áhuga safnara sem eiga hér tækifæri til að eignast bíla sem hefur nánast aldrei verið ekið.