Niðurstaða nýrrar rannsóknar frá danska þjóðminjasafninu bendir til að þetta sé hugsanlega ekki bara goðsögn eða mýta, að þetta hafi í raun og veru gerst á sjöttu öld.
Vísindamenn rannsökuðu 104 eikartré frá sjöttu öld og sáu að þau sýna öll merki um óvenjulegan vöxt á árunum 539 til 541.
„Við sjáum á árhringjunum í trjánum að það hafa verið miklir loftslagsatburðir árið 539 en þá urðu vaxtarskilyrðin mjög slæm því það kólnaði svo mikið,“ hefur Jótlandspósturinn eftir Morten Fischer Mortensen, aðalhöfundi rannsóknarinnar.
Á þessum tíma var stór hluti jarðarinnar hulinn ösku og brennisteinssýru vegna fjölda eldgosa í Mið-Ameríku og hér á landi.
Skriflegar heimildir frá Miðjarðarhafssvæðinu og Kína segja frá óvenjulega daufri sól og korni sem aldrei náði þroska á ökrum.
Nú hafa vísindamenn í fyrsta sinn sýnt fram á að þessara áhrifa hafi gætt í Danmörku. „Við vitum að stór hluti jarðarinnar fann fyrir áhrifum þessara atburða en við höfum aldrei getað sannað að þeirra hafi einnig gætt hér í Danmörku. Nú erum við í fyrsta sinn með áþreifanleg sönnunargögn fyrir að ástandið hafi verið slæmt hérna,“ sagði Mortensen.
Á þessum tíma var Danmörk bændasamfélag og því hafa þrjú löng ár með myrkri og kulda haft skelfilegar afleiðingar fyrir landið. Merki um áhrifin eru þekkt í Danmörku því svæði og þorp voru yfirgefin á þessum tíma og skógar teygðu úr sér og fóru að vaxa á ökrum. Mortensen sagði að líklega hafi margir ekki lifað þetta af.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Journal of Archaeological Science Reports.