Talið er að þvermál loftsteinsins sé á bilinu 220 til 480 metrar. Hann mun þjóta fram hjá okkur á ofsahraða eða tæplega 32.000 km/klst en það er um 26 faldur hljóðhraði.
Þegar hann verður næst jörðinni verður hann í um einnar milljón kílómetra fjarlægð. Á mælikvarða alheimsins þá er þetta mjög nálægt en sem betur fer ekki svo nálægt að við þurfum að hafa áhyggjur.
NASA skilgreinir alla loftsteina og aðra hluti í geimnum sem koma nær jörðinni en í 193 milljóna kílómetra fjarlægð sem „hluti sem fara nærri jörðinni“. Stórir hlutir, sem koma nær en 7,5 milljónir kílómetra, eru skilgreindir sem „hugsanlega hættulegir“.
NASA fylgist með ferðum um 28.000 loftsteina með Asteroid Terrestrial-impact Last Alert System (ATLAS) en það samanstendur af fjórum sjónaukum sem skanna næturhimininn á 24 klukkustunda fresti.
NASA hefur lagt mat á braut allra þekktra hluta, sem eru í flokknum „hlutir sem fara nærri jörðinni“ til loka þessarar aldar. Niðurstaðan er að ekki eru taldar líkur á árekstri við stóran loftstein næstu 100 árin hið minnsta.
Ef loftsteinn á borð við 2024 ON myndi lenda í árekstri við jörðina myndi það vera atburður í líkingu við þann sem átti sér stað fyrir 66 milljónum ára þegar stór loftsteinn skall á jörðinni og gerði út af við risaeðlurnar.