Þetta kom fram fyrir dómi í Kaupmannahöfn í fyrradag þar sem gæsluvarðhaldskrafa yfir öðrum Svíanum var tekin fyrir. Hann er aðeins 16 ára. Fyrir situr hinn Svíinn, sem er 25 ára, í gæsluvarðhaldi.
Fyrir dómi kom fram að um kvöldmatarleytið þann 13. ágúst hafi þrjár manneskjur, sem ekki er vitað hverjar eru, gengið fram hjá verslun Føtex við Frederikssundvej í Kaupmannahöfn. Svíarnir gengu fyrir aftan fólkið en óþekktir aðilar höfðu gefið þeim fyrirmæli um að drepa fólkið.
Unglingurinn beindi skammbyssunni að fólkinu og tók í gikkinn en byssan stóð á sér og því misheppnaðist morðtilraunin.
Ekstra Bladet segir að í máli saksóknara hafi komið fram að Svíarnir hafi komið til Danmerkur 11. ágúst og þar hafi þeir hitt 41 árs danskan handlangara sem fylgdi þeim á hótel í Albertslund.
Þeir hittu Danann síðan þrisvar sinnum á göngustíg. Daninn lét þá fá rafmagnshjól, handsprengjur og skotvopn og síðan voru þeir sendir af stað til að fremja morð.
Óþekktir aðilar sögðu þeim að setjast á bekk við Branddamen í Brønshøj og ef einhver gæfi sig á tal við þá, áttu þeir að skjóta fólkið og sprengja handsprengjurnar.
Þetta misheppnaðist tvisvar og því voru þeir sendir af stað á nýjan leik þann 13. ágúst. Þá var þeim sagt að drepa fyrrgreinda þremenninga við Føtex. Þegar það misheppnaðist var þeim sagt að fara í Mjølnerparken og drepa einn eða fleiri. Þegar þangað var komið virðast þeir hafa orðið viðskila og síðar um kvöldið var eldri Svíinn handtekinn og var hann þá með handsprengjur í fórum sínum.
Í kjölfar handtöku mannsins komst lögreglan á slóð fyrrgreinds handlangara og annars manns, 25 ára Dana, sem hefur tengsl við skipulögð glæpasamtök.
Danirnir tveir og Svíarnir tveir eru grunaðir um að hafa ætlað að fremja morð í samvinnu við óþekkta aðila.